Þinglok líklega eftir helgi

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það liggur ekki algerlega niðurneglt fyrir upp á klukkustund eða mínútur hvenær þinginu lýkur en ég geri mér vonir um að það verfði fljótlega eftir helgina,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is spurður hvenær búast megi við að þingið ljúki störfum fyrir jól.

Einar segir að sameiginlegur skilningur liggi fyrir um það hvaða mál verði afgreidd áður en Alþingi ljúki en hluti af honum fólst í því að annarri umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar lauk rétt fyrir miðnætti í gærkvöld. Atkvæðagreiðslan fer fram eftir að þingfundur hefst í dag og fer frumvarpið síðan til fjárlaganefndar þingsins og í kjölfarið til þriðju og síðustu umræðu.

„Ég er auðvitað ánægð með að tekist hafi að semja við stjórnarandstöðuna svo þingstörf geti haldið eðlilega áfram. Það sé þá hægt að klára afgreiðslu bæði fjárlaganna fyrir næsta ár og fjáraukalaganna fyrir yfirstandandi ár. Það liggur auðvitað fyrir hvaða óvæntu útgjöld urðu á þessu ári þannig að stofnanir bíða eftir því að fjáraukalögin séu afgreidd til þess að hægt sé að greiða þeim út áfallinn kostnað. Stjórnarandstaðan hefur staðið í vegi fyrir því,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert