Aðeins flutt ef heimild liggur fyrir

Frá starfsmannafundi Fiskistofu.
Frá starfsmannafundi Fiskistofu. mbl.is/Árni Sæberg

Verði frumvarp forsætisráðherra um heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir að lögum, mun það fela í sér ótvíræða heimild fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að taka ákvörðun um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis vegna flutnings Fiskistofu.

Í svarinu er ítrekað að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræddi við starfsmenn Fiskistofu 27. júní sl. voru aðeins kynnt áform um að flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar til Akureyrar, ekki ákvörðun.

„Sú ákvörðun ráðherra að kynna umrædd áform sín þá þegar fyrir starfsmönnum Fiskistofu var tekin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi og vildi ráðherra með því leitast við að tryggja að starfsmenn stofnunarinnar hefðu vitneskju um málið, auk þess sem hann taldi mikilvægt að starsmennirnir hefðu eins langan tíma ot unnt var til að taka ákvörðun um hvort þeir vilji flytjast með stofnuninni norður til Akureyrar,“ segir í svari ráðuneytisins.

Í því segir einnig að upplýsingar sem ráðherra veitti starfsmönnum Fiskistofu í bréfi dagsettu 10. september sl., um hvernig áformað sé að haga skipulagi og framkvæmd flutninganna til Akureyri, hafi byggt á tillögum verkefnisstjórnar. Samþykki ráðherra á þessum tillögum hafi hins vegar verið bundið því skilyrði að lagaheimild fyrir flutningi væri ótvíræð og einnig að heimildir í fjárlögum fengjust til að greiða þann kostnað sem af flutningunum leiðir.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki sent starfsmönnum Fiskistofu skriflega tilkynningu um að leitað verði lagaheimildar fyrir flutningunum eða einstökum þáttum þeirra, og heldur ekki um að aflað verði sérstakra heimilda í fjárlögum til að greiða kostnað af flutningunum, samkvæmt svari ráðuneytisins.

„Frá upphafi þegar ráðherra tilkynnti starfsmönnum Fiskistofu fyrst um áform sín um að flytja höfuðstöðvar til Fiskistofu til Akureyrar á fundi þann 27. júní 2014 hefur hins vegar alltaf verið byggt á því í öllum tilkynningum og upplýsingum til starfsmanna Fiskistofu og einnig á fundum að flutningurinn og allar ráðstafanir vegna hans verði bundnar því skilyrði að heimildir fáist í fjárlögum til að greiða þann kostnað sem af þeim hlýst og að aðrar lagaheimildir séu ótvíræðar. Það leiðir því af eðli máls að umrædd boð koma ekki til framkvæmda og ekkert verður af umræddum greiðslum nema til flutninganna komi.“

Svar ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert