Kvennaboltinn næstur

Sigmundur Ó. Steinarsson höfundur bókarinnar, Haukur Bjarnason Framari, Ólafur Hannesson …
Sigmundur Ó. Steinarsson höfundur bókarinnar, Haukur Bjarnason Framari, Ólafur Hannesson KR-ingur og Gunnar Gunnarsson Valsmaður sem voru heiðraðir með gullmerki KSÍ í útgáfuhófi Sögu landsliðs karla. Ómar Óskarsson

Upplýst var í útgáfuhófi bókarinnar Saga landsliðs karla í knattspyrnu í gærkvöldi að höfundurinn, Sigmundur Ó. Steinarsson, væri byrjaður á næstu bók fyrir Knattspyrnusamband Íslands: Sögu kvennaknattspyrnunnar. Að sögn Geirs Þorsteinssonar, formanns KSÍ, er fyrirhugað að verkið komi út eigi síðar en árið 2020 en þá verða fimmtíu ár liðin frá því fyrsti opinberi knattspyrnuleikur kvenna for fram á Íslandi.

Saga landsliðs karla er þriðja bókin sem Sigmundur skrifar fyrir KSÍ en árið 2011 kom 100 ára saga Íslandsmótsins út í tveimur bindum. „Fyrst vínrautt, síðan kóngablátt, þá silfur og að lokum GULL. Ég mun sjá um stúlkurnar mínar!“ segir Sigmundur og vísar til kápulitar bókanna.

Saga landsliðs karla á að vera sagan öll, að sögn Sigmundar. Allar staðreyndir er snúa að landsliðinu í bland við alls kyns fróðleik og frásagnir. Hann heldur sig þó á jörðinni þegar kemur að sögunum. „Það hefur oft verið sagt að sannleikurinn megi ekki skemma góða sögu. Þegar kemur að bók sem þessari á það ekki við. Ég legg áherslu á að segja rétt frá, en sleppi að segja sögur, sem hafa tekið breytingum með tíð og tíma. Þær sögur fá því að halda áfram að breytast með árunum á herrakvöldum – þeim til skemmtunar sem segja þær og hlusta. Þegar sagan er skráð í heild sinni er nauðsynlegt að rétt sé farið með,“ segir hann.

Nánar er rætt við Sigmund um bókina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar er einnig rætt við Helga Magnússon sagnfræðing sem sér knattspyrnu í allt öðru ljósi eftir að hafa lesið próförk. „Núna skil ég betur hvernig fótbolti getur gripið menn heljartökum.“

Sigmundur segir Helga hafa lesið próförkina af miklum metnaði og fylgt verkinu alla leið í prentsmiðjuna. Raunar var óvænt hringt í Sigmund þegar ræsa átti prentvélina og honum tilkynnt að Helgi væri mættur enn eina ferðina.

„Hvað vill hann nú?“ spurði Sigmundur.

„Hann vill breyta nokkrum úrslitum sem hann er ekki sáttur við!“

Kvennalandsliðið hefur haft ríka ástæðu til að fagna undanfarin ár.
Kvennalandsliðið hefur haft ríka ástæðu til að fagna undanfarin ár. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert