Sjö lönd á sjö vikum

Urður heilsaði upp á Búdda-munka í Kambódíu.
Urður heilsaði upp á Búdda-munka í Kambódíu.

Lífið er til þess að njóta þess, segir Urður Egilsdóttir 16 ára sem fór ásamt föður sínum, Agli Ólafssyni, í mikla reisu um Suðaustur-Asíu í sumar. Hún deilir upplifun sinni með lesendum Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Árið 2014 hefur svo sannarlega verið merkilegt. Íslendingar fengu loksins afgreidda skuldaleiðréttingu, eldgos hófst í Holuhrauni og svo virðist sem hálf þjóðin hafi verið að krefjast hærri launa. Fyrir mér var þó annar hápunktur.

Halldóra Geirharðs hafði áhrif

Af einhverjum dularfullum ástæðum ákváðum við faðir minn að ferðast til Suðaustur-Asíu. Ferðin hafði verið í mótun í rúmlega tvö ár og fór frá því að vera heimsreisa í nokkra mánuði yfir í hið endanlega plan. Kveikjan var, að ég held, þegar við vorum einhvern morguninn að hlusta á viðtal við Halldóru Geirharðsdóttur leikkonu um tilvonandi heimsreisu hennar með fjölskyldu sinni. Við hugsuðum bara: fyrst hún getur selt húsið sitt og farið, af hverju ekki við? Miðar voru bókaðir, bakpokar fylltir og daginn eftir útskrift mína úr grunnskóla héldum við af stað. Við seldum samt ekki húsið heldur skildum það eftir í umsjá móður minnar og kattarins.

Dagur í París – svo til Víetnam

Í fyrsta legg ferðarinnar skellti ég mér á tónleika í Lundúnum og síðan tókum við lest til Parísar. Að fara Ermarsundsgöngin var eitt af því sem ég hafði haft mikinn áhuga á að upplifa, það kom þó í ljós að þessi göng voru ekki mikið öðruvísi en önnur göng svo að ég svaf bara mestalla leiðina. Eftir einn dag í París tókum við svo flug til Hanoi í Víetnam.

Ég hafði aldrei verið í ellefu klukkustunda flugi áður og fannst það frekar óþægileg tilfinning að vera föst í þessu „málmboxi“ svo lengi, en þetta var nú samt bara indælis flugferð. Flugfreyjurnar stóðu allan tímann með bros á vör og vildu gera allt fyrir mann. Þetta var svolítið eins og að vera í mat hjá ömmu.

Klukkan sjö að morgni hinn 10. júní vorum við lent í Hanoi, höfuðborg Víetnam. Hótelherbergið var ekki tilbúið svo ég fékk þá ágætu hugmynd að við fengjum okkur bara göngutúr. Líkaminn reyndist hins vegar ekki alveg vera búinn að venjast 30 gráðu hita. Er við komum lafsveitt á hótelið sagði hinn ágæti maður er vísaði okkur til herbergisins þessa frægu setningu: „It is a bit hot“ á meðan hann horfði á gegnblauta skyrtu föður míns.

Víetnamar eru alveg yndisleg þjóð. Landinu er stjórnað af kommúnistum og það er mikil spilling í stjórnkerfinu, en fólkið er duglegt og vinnur fyrir sínu.

Mótorhjólið er fjölskyldubíllinn

Ég fékk ekki beint „menningarsjokk“ við komu mína til landsins, en það sem sló mig mest var umferðin. Að meðaltali deyja 29 manns á dag í umferðarslysum og skýrist það af því að nánast enginn fylgir umferðarreglum, rauð ljós og stöðvunarmerki stoppa Víetnama ekkert. Um 90 milljónir manna búa í Víetnam og u.þ.b. 37 milljónir mótorhjóla eru í landinu á meðan það eru aðeins tvær milljónir bíla. Mótorhjólið er fjölskyldubíllinn fyrir Víetnömum. Oft á tíðum sá maður foreldra og tvö börn saman á einu hjóli og enginn með hjálm; ef það voru einhverjir með hjálm þá voru það foreldrarnir.

Og ef þú vilt reyna að ganga yfir umferðargötu þýðir ekkert annað en að ganga rösklega yfir án þess að stoppa, að reyna að bíða eftir því að umferðin stoppi fyrir þér er eins og að reyna að fá Ólaf Ragnar til þess að láta af forsetaembætti. Það er eflaust hægt en tekur langan tíma.

Víetnamar taka sýkingavarnir ekki eins alvarlega og Vesturlandabúar. Matur er oft á tíðum snæddur úti á gangstétt, sem er því mjög erfitt að ganga eftir. Fjölskyldan kemur þar saman og snæðir hádegismat á litlum plaststólum sem við myndum telja hæfa á leikskóla. Ekki var mikið um ferðamenn á þessum tíma árs, svo að mörg augu fylgdu manni oft eftir á gangi.

Dýrasta máltíðin kostaði 4.000 krónur fyrir bæði

Hótel og matur í Víetnam kosta ekki mikið, en við eyddum aðeins um 2.000 krónum fyrir nóttina. Dýrasta máltíðin sem við keyptum kostaði samtals um 4.000 krónur og fengum við í flestum tilfellum alveg ágætan mat. Þar tel ég ekki með snákana og rotturnar sem okkur var boðið upp á, en það var aðeins of langt gengið fyrir mig og smakkaði ég ekki svoleiðis.

Við höfðum pantað okkur tveggja vikna ferð með ferðahópi í gegnum Víetnam. Í þessari frábæru ferð fengum við svo sannarlega að upplifa landið og menningu þess. Alls konar skrýtinn matur, bátsferð um Halong bay, söfn og svo margt fleira fengum við að upplifa ásamt hópi af Áströlum. Mikið af fjármagni Ástralanna fór í áfengi, en það leiddist þeim nú ekki mikið. Það var alveg gríðarlega þægilegt að hafa hvern dag skipulagðan fyrir sig og mæli ég eindregið með svona ferðum. Það er alltaf gaman að kynnast nýju fólki úr ólíkum áttum og ég lærði heilmikið um Ástralíu á leið okkar um Víetnam.

Lærðu allt um Víetnamstríðið

Alls konar ferðamáta fékk ég svo að upplifa í ferð okkar með hópnum. Meðal annars ferðuðumst við með næturlest í 12 tíma. Við deildum klefa okkar, sem innihélt tvær kojur, með fjögurra manna fjölskyldu. Klefarnir voru litlir, þröngir og gamlir og komu pempíueiginleikar mínir þar fram, en ég var búin að vera frekar spennt að fá að ferðast með næturlest. Lestarferðin reyndist hins vegar hin indælasta. Fjölskyldan hvarf um klukkan fimm um morguninn án þess að það heyrðist múkk í þeim og ég svaf alveg til níu, bara aldeilis vel. Í ferðinni um Víetnam fór ég í mitt fyrsta innanlandsflug og fékk að hanga aftan á mótorhjóli.

Er þessi mikla reisa okkar í gegnum landið endaði vorum við komin til Ho Chi Minh-borgar í suðurhluta landsins. Þá vorum við allt í einu orðin ein og yfirgefin, Ástralarnir farnir annað. Í borginni eyddum við nokkrum dögum í að læra allt um Víetnamstríðið sem við gátum, fara í dýragarðinn þar sem við sáum í fyrsta skipti ljón eðla sig og einnig reyndi ég að fá klippingu á hóruhúsi, án árangurs. Við lærðum þar því ýmislegt um ofbeldi og erótík og borðuðum líka á MacDonalds.

Evrurnar frá ömmu komu sér vel

Því næst fórum við í þriggja daga ferð upp Mekong-ána sem liggur í gegnum Víetnam, Kambódíu, Laos og Kína. Á landamærum Kambódíu þurfti að borga fyrir vegabréfsáritun, en hann faðir minn var alveg viss um að þeir væru nú með posa eða hraðbanka. Landamærin voru hins vegar ekki alveg eins nútímaleg og við bjuggumst við og að sjálfsögðu var faðir minn ekki með aura í lausu. Við fórum að hafa áhyggjur af því að við yrðum föst á landamærunum til æviloka, en ég kom þá til bjargar. Grafnar niðri í tösku voru nokkrar evrur sem amma mín hafði gefið mér í afmælisgjöf og gat ég því notað þær til að koma okkur inn í Kambódíu. Samningar á milli fararstjórans og landamæravarðanna voru frekar dularfullir og tóku heillangan tíma, en við komumst þó heil á húfi til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu.

Þar lærðum við um alla hina hræðilegu sögu Kambódíu og rauðu khmeranna. Á aðeins þremur árum myrtu þeir um tvær milljónir manna eða um fjórðung þjóðarinnar. Stefna þeirra var að skapa hið fullkomna sjálfbæra þjóðfélag hinna vinnandi stétta, en allt endaði það á annan veg. Leiðtogar rauðu khmeranna óttuðust mjög andstöðu og létu því drepa þúsundir eigin liðsmanna sem þeir töldu vera svikara. Allir sem höfðu menntun, gengu með gleraugu, töluðu ensku eða frönsku o.s.frv. voru drepnir. Lífið einkenndist af hungri, pyntingum og morðum á tímum Pol Pot sem var leiðtogi rauðu khmeranna.

Erfið heimsókn í fangelsi

Við heimsóttum S-21-fangelsið þar sem um 17 þúsund fangar létust, en aðeins um 12 manns lifðu af. Tveir af þessum 12 sitja við inngang fangelsisins, sem er safn í dag, og selja bækur sínar. Annar þeirra heitir Chum Mey og var bifvélavirki. Hann bjargaðist vegna þess að hann kunni að gera við ritvélar. Mey fann konuna sína og barn eftir að hann slapp úr fangelsinu, en þau létust bæði þegar þau voru að flýja undan hermönnum. Saga hans og Bou Meng er alveg ótrúleg og kraftaverk að þeir séu enn á lífi. Heimsókn okkar í S-21-fangelsið hafði gríðarleg áhrif á mig og það tók mig langan tíma að jafna mig eftir hana.

Við tókum síðan sjö tíma rútu til Siem Reap, borgar í miðri Kambódíu, á lélegum vegum. Við upplifðum þessa rútuferð eins og við værum að keyra á Mýrunum svo öll heimþrá hvarf algerlega.

Í Kambódíu skoðuðum við Angkor Wat og fleiri ævaforn hof, sem voru alveg stórkostleg. Yndislegt hótel, einka-tuk-tuk-bílstjóri, fornminjar og það hversu notaleg borgin er gerði Siem Reap eina af mínum uppáhaldsborgum hingað til. Þar gerðist líka það skemmtilega atvik að apar stálu veski föður míns. Ég segi apar án þess að vera viss, það gæti vel verið að veskið hefði dottið úr vasanum eða að einhver hefði stolið því, en ég vil ímynda mér að það hafi verið litlir sætir apar þar sem við vorum að gefa þeim að éta á þeirri stundu sem veskið hvarf. Kannski nota aparnir í Siem Reap krítarkort, hver veit?

Frá Kambódíu til Kuala Lumpur

Við kvöddum Kambódíu með tárum og flugum til Kuala Lumpur, höfuðborgar Malasíu. Það var mikið sjokk. Að fara úr svo frumstæðu landi sem Kambódía er yfir í borg þar sem háhýsi og tækni eru á hverju strái er skrýtið, en jafnlangt er á milli Kambódíu og Kuala Lumpur og það er fyrir Íslendinga að fljúga til London.

Í Malasíu gerði ég nokkuð sem ég hef aldrei upplifað áður, eins og svo margt annað í þessari ferð, en ég spurði föður minn einfaldlega hvert við ættum að fara næst og af einhverri ástæðu enduðum við á að fljúga til Balí, eyjar í Indónesíu.

Á Balí er mesta vegabréfaeftirlitsskoðun sem ég hef komist í kynni við. Röðin var álíka löng og í rússíbana á góðum sumardegi og bæði var hirt fé af okkur við komu og brottför frá landinu. Balí er nú frekar þessi týpíski túristastaður. Staðurinn minnti mig mjög mikið á Benidorm, það eina sem vantaði voru ölvaðir Íslendingar. Við áttum þó ágæta dvöl á góðu hóteli þar sem lagið Take five byrjaði í spilun klukkan átta á morgnana og lauk ekki fyrr en klukkan 22 á kvöldin. Þetta er þó voða skemmtilegt djasslag svo við skemmtum okkur konunglega. Fallegt landslag og fín strönd veitti okkur líka ágæta afþreyingu.

Að lokinni Asíureisu okkar tók við 26 tíma ferðalag til Berlínar, þar sem ég gjörsamlega heillaðist af þýskri þjóð og menningu. Allt snyrtilegt og skipulag til fyrirmyndar.

Að dvölinni í Berlín lokinni var sjö vikna reisu okkar í gegnum sjö lönd lokið. Við eyddum um einni og hálfri milljón í allt, sem er nú álíka mikið og kostar að kaupa bíldruslu á Íslandi. Ég er svo gríðarlega heppin að fá að upplifa svona ferð aðeins 16 ára gömul, en ég hvet alla, unga sem aldna, til að drífa sig af stað í svona ævintýrareisu sem fyrst. Þú hugsar kannski: en ég er í vinnu og þarf að sjá um hitt og þetta, en lífið er svo stutt og sannarlega til þess að njóta þess og af hverju þá ekki að gera eitthvað skemmtilegt til þess að nýta það sem best?

Aldrei er of seint gott að gera!

Víetnamar aka flestir mótorhjólum. Þeir leggja litla áherslu á umferðaröryggi.
Víetnamar aka flestir mótorhjólum. Þeir leggja litla áherslu á umferðaröryggi.
Í Víetnam býðst ferðamönnum að smakka grillaðar rottur og froska.
Í Víetnam býðst ferðamönnum að smakka grillaðar rottur og froska.
Egill og Urður hrifust af Mekong dalnum.
Egill og Urður hrifust af Mekong dalnum.
Urður heillaðist af öpunum í Kambódíu.
Urður heillaðist af öpunum í Kambódíu.
Stytturnar í Angkor eru stórkostleg listaverk.
Stytturnar í Angkor eru stórkostleg listaverk.
Urður við konungshöllina í Phnom Penh.
Urður við konungshöllina í Phnom Penh.
Skógurinn hefur nánast kæft sum musterin í Angkor.
Skógurinn hefur nánast kæft sum musterin í Angkor.
Á Balí fóru Urður og Egill í stuttan túr á …
Á Balí fóru Urður og Egill í stuttan túr á fíl.
Urður við tvíburaturnana í Kuala Lumpur.
Urður við tvíburaturnana í Kuala Lumpur.
Musterin í Angkor eru fjölmörg og bera vott um mikla …
Musterin í Angkor eru fjölmörg og bera vott um mikla verkkunnáttu.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert