Sáu 74 stjörnuhröp á klukkutíma

Loftsteinadrífan Gem­inít­ar náði hámarki sínu um helgina. Hér má sjá …
Loftsteinadrífan Gem­inít­ar náði hámarki sínu um helgina. Hér má sjá stjörnuhröp yfir Vestmannaeyjum úr sambærilegri loftsteinadrífu. Ljósmynd/Stjörnufræðivefurinn/Óskar Elías Sigurðsson

„Þetta var ótrúlega magnað,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, sem varð vitni af því um helgina þegar loftsteinadrífan Gem­inít­ar náði hámarki sínu. Hún og fjölskylda hennar sáu alls 74 stjörnuhröp á einni klukkustund þegar þau sátu í heitum potti á laugardagskvöldið.

Ingibjörg var stödd í sumarbústað í Fossatúni í Borgarfirði ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum, en þau höfðu séð fréttir um það að loftsteinadrífan myndi sjást vel á laugardagskvöld. Búist hafði verið við því að veður gæti sett strik í reikninginn, en að sögn Ingibjargar var himininn heiðskýr og veðrið stillt.

„Hentist niður alveg endalaust“

„Við ákváðum að fara í pottinn um 11 leytið og þá hentist þetta niður alveg endalaust. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ég hef séð í mesta lagi átta stjörnuhröp yfir ævina en þarna sáum við alls 74 á einu bretti.“

Fjölskyldan hafði slökkt öll ljós í bústaðnum og sat því í svartamyrkri í pottinum. „Það var því engin truflun á ljósi og þetta sást mjög vel,“ segir Ingibjörg. Hún segist þó ekki hafa tekið neinar myndir, enda hafi hún verið önnum kafin við að telja stjörnuhröpin.

„Við vorum með börnin okkar þrjú í pottinum og ákváðum að fara í keppni hver sæi flest stjörnuhröp. Við skiptum okkur því upp til að telja þau og enduðum í alls 74. Ég var eins og lítill krakki,“ segir hún og hlær. „Börnin mín munu aldrei gleyma þessum degi.“

Góðar aðstæður til stjörnuskoðunar

Stjörnu­hröp­in sem sjást verða til þegar agn­ir á stærð við sand­korn eða litla steina falla í gegn­um loft­hjúp jarðar. Agn­irn­ar ferðast á um 35 km hraða á sek­úndu að meðaltali, svo þegar ein þeirra rekst á loft­hjúp­inn guf­ar hún hratt upp vegna nún­ings og skil­ur eft­ir sig ljós­rák.

Aðstæðurnar í Fossatúni virðast vera einstaklega góðar til stjörnuskoðunar, en að sögn Ingibjargar koma ferðaskrifstofur oft með hópa í norðurljósaferðir á svæðið. 

Frétt mbl.is: Besta loftsteinadrífa ársins

Stjörnukort af tvíburamerkinu. Með því er hægt að finna Kastor …
Stjörnukort af tvíburamerkinu. Með því er hægt að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í merkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor. Stjörnufræðivefurinn
mbl.is