„Þetta er mikið réttlætismál“

Ögmundur Jónasson, alþingismaður.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stendur einhuga að baki þessu máli. Allir nefndarmenn eru flutningsmenn. Þetta er þannig ekki flokkspólitískt mál eða stjórnar- eða stjórnarandstöðumál. Þetta er bara sameiginlegt mál nefndarinnar.“

Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en nefndin afgreiddi á fundi sínum í morgun til annarrar umræðu á þingi frumvarp til laga um heimild til endurupptöku vegna látinna dómþola í svonefndum Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

„Frumvarpið gengur út á það að heimila nánum ættingjum látinna einstaklinga í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum að leggja fram beiðni um að málið verði endurupptekið fyrir dóm hvað þá varðar. Þannig að hér er ekki um að ræða ákvörðun Alþingis að málið verði tekið upp fyrir dómi heldur er einvörðungu verið að opna á að slík beiðni fái skoðun ef ættingjar óska þess,“ segir Ögmundur.

Verði heimildin nýtt fer beiðnin til embættis sérstaks saksóknara sem tekur afstöðu til málsins. Heimild er til staðar í dag um að dómþolar sem eru á lífi geti lagt fram slíka beiðni en Ögmundur segir að með frumvarpinu sé verið að gæta jafnræðis í þeim efnum óháð því hvort viðkomandi dómþoli er enn á lífi eða látinn.

„Þarna er á ferðinni mikið réttlætismál. Þetta er einstakt mál í íslenskri réttarsögu og við erum að ljúka því sem betur hefði verið gert fyrir allmörgum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert