Endurlífgun í björgunarsveitarbíl

Á tímabili voru allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokaðar …
Á tímabili voru allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokaðar en sjaldgæft er að sú staða komi upp. Ljósmynd/Sigurður Ó. Sigurðsson/Landsbjörg

Sjúklingur var fluttur með bíl björgunarsveitar eftir Reykjanesbrautinni frá Suðurnesjum á Landspítalann í gær. Í bílnum voru sjúkraflutningamenn og læknir sem þurfti að beita endurlífgun á leiðinni en Reykjanesbrautin var lokuð vegna ófærðar. 

Líkt og áður hefur komið fram spilltist færð verulega á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á fleiri stöðum eftir hádegi í gær. Á tímabili voru allar leiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu lokaðar en sjaldgæft er að sú staða komi upp.

Björgunarsveitarmaður, sem einnig er sjúkraflutningamaður, kom fyrstur á vettvang á Suðurnesjum í gær þar sem aðstoða þurfti veikan mann. Að sögn lögreglu var færðin virkilega slæm. Þar sem björgunarsveitarmaðurinn var á góðum bíl og var ákveðið að sjúklingurinn yrði fluttur með honum. Björgunarsveitarmaður keyrði bílinn en sjúkraflutningamenn ásamt lækni önnuðust sjúklinginn. Lögregla og Brunavarnir Suðurnesja tóku einnig þátt í útkallinu.

Ferðin gekk að sögn lögreglu vel þrátt fyrir slæma færð. Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tók á móti bílnum þegar komið var í Hafnarfjörð og veitti bílnum forgangsakstur á Landspítalann.

Uppfært 22:30

Björgunarsveit Suðurnesja vill koma því á framfæri að samningur um samstarf Björgunarsveitar Suðurnesja og Brunavarna Suðurnesja sé í gildi. Samkvæmt honum aðstoðar björgunarsveitin Brunavarnir Suðurnesja í slæmum veðrum þegar það kemur að því að komast á milli staða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert