Vagn Ingólfsson birti myndband á Facebooksíðu sinni í dag, sem sýnir „brjálaðan gröfumann“ ryðja burt bílnum hans í snjónum í Ólafsvík.
Vagn sagði í samtali við mbl.is að myndbandið væri reyndar orðið nokkurra ára gamalt og allt í góðu gamni, eins og sjá má glögglega undir lok myndbandsins. Fram að því standa þeir Vagn og gröfumaðurinn Svanur Tómasson sig ágætlega í stykkinu.
Hann segir að um gamlan og hálfónýtan vinnubíl hafi verið að ræða sem hann hafi fest í snjónum á sínum tíma. „Við vorum bara að hafa gaman af þessu, það þurfti hvort eð er að taka bílinn og höfðu margir gaman af,“ segir Vagn. „Það voru allir furðulostnir á þessari hegðun, en þetta er allt í góðu gríni. Þeir eru að gera góða hluti hérna í mokstrinum núna, það er af nógu að taka.“
Vagn segir veðrið í Ólafsvík fínt, en mikill snjór er á götum og snjó mokað nánast allan sólarhringinn.