Skuldalækkunin með jólasteikinni

„Við vonumst til þess að hægt verði að opna á þetta um eða upp úr næstu helgi. Þá ætti öllum prófunum að vera lokið. Þetta er dálítið viðamikið verkefni og skiptir miklu að það séu ekki neinar villur í gögnunum sem við erum að fá. Þannig að það þarf að prófa þetta dálítið vel og prófanir munu standa yfir um helgina. Síðan munum við senda tölvupóst á alla umsækjendur þegar búið er að opna.“

Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í samtali við mbl.is en fram kemur á vefsíðu embættisins að hægt verði að samþykkja höfuðstólslækkun íbúalána með rafrænum skilríkjum í næstu viku. Þá standa hátíðirnar sem kunnugt er hæst. Áður var talað um að það yrði mögulegt um miðjan þennan mánuð.

Spurður hvort fólk verði þá hugsanlega að samþykkja leiðréttinguna rétt áður en það borðar jólasteikina bendir Skúli á að höfuðstólslækkunin fari ekkert frá fólki enda hafi það þrjá mánuði til að samþykkja hana. Þá segir hann meirihluta þeirra sem hafi sótt um lækkunina og eiga rétt á henni hafa orðið sér úti um rafræn skilríki.

„Það er kominn það stór hluti með rafræn skilríki. Það er meirihluti þeirra sem þurfa að samþykkja kominn með slík skilríki. Þannig að við höfum ekki áhyggjur af þeim þætti. Við höfðum aðeins áhyggjur af því í sumar og haust. En það hefur gengið vel að innleiða þessi rafrænu skilríki. Það var alltaf stefnan að hægt yrði að gera þetta fyrir jólin og það verður örugglega á þessu ári.“

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert