Enn ein lægðin hringsólar við landið

Enn ein lægðin við landið.
Enn ein lægðin við landið. Styrmir Kári

Nokkur djúp lægðarmiðja er á hringsóli fyrir austan land og beinir hún éljum og snjókomu í vaxandi mæli að Austurlandi fram á kvöld, frá Þistilfirði, austur og suður úr á Hornafjörð. Eins hvessir og um og eftir miðjan dag norðaustan 15-20 m/s og reiknað með stórhríð á fjallvegum.  Á láglendi verður smámsaman krapi og jafnvel slydda, samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Vegagerðarinnar. Sjá veðurvef mbl.is

Með því að smella hér getur þú fylgst með lægðinni „í beinni“.

Á Hellisheiði, Þrengslum og Sandskeiði er hálka. Það er hálka og snjóþekja á Suðurlandi en hálkublettir og hálka á Suðvesturlandi. Flughált er í Grafningnum.

Á Vesturlandi er hálka og snjóþekja á flestum vegum. Flughált er á Útnesvegi.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum og éljagangur mjög víða. Ófært er á Klettshálsi. Flughált er á Barðaströnd og í vestanverðum Hrútafirði. Snjóflóðahætta er á Súðavíkurhlíð.

Snjóþekja og hálka er á Norðurlandi og víða þæfingur. Ófært er á Þverárfjalli. Éljagangur eða snjókoma er mjög víða.

Hálka eða snjóþekja er á Austurlandi og sumstaðar skafrenningur. Þæfingur er á Háreksstaðaleið, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Á Suðausturlandi er hálka.

mbl.is

Bloggað um fréttina