Gat ekki efast um umboð Gísla Freys

Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hafði ekkert tilefni til að álykta, eða ætla, að annarlega ástæður gætu legið að baki beiðni aðstoðarmannsins um upplýsingar,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í svari sínu til Persónuverndar vegna upplýsinga sem hún veitti aðstoðarmanninum um hælisleitanda.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, afhenti Persónuvernd bréf þar sem hún útskýrir sína hlið á því þegar greinargerð um hælisleitandann Tony Omos var send Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra.

Í bréfinu segist Sigríður Björk hafa verið í góðri trú um og enga ástæðu haft til að ætla annað en að aðstoðarmaður innanríkisráðherra óskaði eftir umræddum gögnum í umboði ráðherra í greint sinn og sem starfsmaður innanríkisráðuneytisins og jafnframt að réttmætar og eðlilegar forsendur lægju að baki beiðni hans. „Forstöðumenn eða starfsmenn undirstofnana ráðuneytis hljóta auk þess almennt séð að geta gengið að því sem gefnu, a.m.k. þar til hið gagnstæða kemur í ljós, að umboð og heimildir til þess og að erindi þeirra eigi sér réttmætar og eðlilegar forsendur. Þá hljóta forstöðumenn og starfsmenn undirstofnana að gefa sér, líkt og undirrituð í greint sin, að þeir sem taka við upplýsingum fyrir hönd ráðherra og ráðuneytis virði þær reglur sem gilda um meðferð viðkvæmra upplýsinga sem þeir kalla eftir og fá starfa sinna vegna.“

Hún segist hafa gengið út frá því að ráðuneytið teldi greinargerðina nauðsynlega til þess að ráðherra gæti sinnt lögbundnum skyldum sínum.

Setja ekki yfirstofnun verklagsreglur

Ólafur Helgi Kjartansson, núverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, sendi Persónuvernd einnig bréf vegna málsins. Í því segir bendir hann á að Tony Omos hafi á tímabilinu frá 19. nóvember 2013 til 14. desember 2013 verið eftirlýstur af lögreglu vegna framkvæmdar alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra á ákvörðun ráðuneytisins um brottvísun Omos af landinu. Mál Omos hafi því enn til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu þar sem ákvörðun ráðuneytisins hafði ekki verið framkvæmd. Greinargerðin var send Gísla Frey 20. nóvember 2013.

„Gekk LSS út frá því og taldi sig ekki hafa tilefni til að efast um að ráðuneytið teldi greinargerðina nauðsynlega til þess að ráðherra gæti sinnt yfirstjórnunarskyldum sínum. Má í þessu sambandi spyrja þeirrar spurningar hvort að það geti talist eðlileg samskipti innan stjórnsýslunnar að undirstofnun efist um heimildir yfirstofnunar sinnar til að óska eftir tilteknum gögnum sem orðið hafa til hjá undirstofnunum?“

Þá segir að rétt sé að árétta að þó að beiðnir innanríkisráðuneytisins til lögreglustjórans á Suðurnesjum um afhendingu gagna séu að jafnaði með formlegum hætti, þá sé það vel þekkt framkvæmd að upplýsinga sé beiðst í gegnum síma, eða með tölvubréfi, krefjist mál skjótrar úrlausnar. Það sé ekki á forræði undirstofnunar að að setja yfirstofnun verklagsreglur eða fyrirmæli um það hvenær óformlegar fyrirspurnir eigi við.

mbl.is