Þarf að greiða Wikileaks 7 milljónir

Sigurður Ingi í Héraðsdómi Reykjaness.
Sigurður Ingi í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Þórðarson, eða Siggi hakkari, þarf að greiða samtökunum Wikileaks rúmar sjö milljónir króna sem hann sveik út úr samtökunum. Sigurður þarf samtals að greiða rúmar 15 milljónir króna vegna fjársvika og rúmar þrjár milljónir króna í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag var Sigurður Ingi dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að brotavilji Sigurðar hafi verið einbeittur, brot hans séu stórfelld, varði verulegar fjárhæðir og beindust í sumum tilvikum að einstaklingum sem urðu fyrir tilfinnanlegu fjártjóni.

Í dómnum segir að Sigurður Ingi starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Wikileaks og sendi tölvupóst þann 27. febrúar 2011 til forstjóra vefverslunarinnar Spreadshirt í nafni Julian Assange, forsvarsmanns Wikileaks samtakanna. Í bréfinu fullyrti hann ranglega að hann nyti fullrar heimildar til meðferðar fjármuna vegna sölu muna á vef Spreadshirt og bað um að tilteknar upphæðir yrðu millifærðar á hann.

Meira en tuttugu millifærslur voru gerðar vegna sölu muna á vef Spreadshirt og runnu til Sigurðar. Nam upphæðin tæplega sjö milljónum króna en rúmlega sjö milljónum á gengi dagsins í dag.

Dómurinn í heild

mbl.is