Bylting í löggæslu á Íslandi

Undanfarna mánuði hefur lögreglan prófað sig áfram í að nota spjaldtölvur í lögreglubílum og app tengt gagnagrunni Lögreglunnar sem stefnt er að verði að staðalbúnaði í lögreglubílum. Nú verður t.a.m. ekki hægt að villa á sér heimildir í umferðinni þar sem lögreglumenn munu geta nálgast myndir í ökuskirteinaskrá.

Árni E. Albertsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að óhætt sé að tala um byltingu í löggæslu á landinu þar sem búnaðurinn auðveldi og hraði skýrslugerð ásamt því að auka skilvirkni lögreglumanna með því að því að gefa þeim nákvæmari upplýsingar á vettvangi.

Búnaðurinn er nú þegar kominn í þrjá bíla á landsbyggðinni og verið er að klára uppsetningu á öðrum sem staðsettur verður á Akureyri. Smátt og smátt verður búnaðurinn innleiddur í bílaflota lögreglunnar um allt land. 

mbl.is

Bloggað um fréttina