Töluvert um vatnsleka í borginni

Í kjölfar hlýindanna sem nú ganga yfir hafa snjór og …
Í kjölfar hlýindanna sem nú ganga yfir hafa snjór og ís víða hlánað og valdið vandræðum. mbl.is/Jim Smart

Á höfuðborgarsvæðinu er víða fljúgandi hálka og hafa margir borgarbúar þurft að eiga við slæma færð á bílastæðum og í smærri götum það sem af er degi. Í kjölfar hlýindanna sem nú ganga yfir hafa snjór og ís víða hlánað og valdið vandræðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur verið töluvert um vatnsleka um alla borgina. „Við höfum sinnt verkefnum í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík í dag og erum að fara núna í fimmta verkefnið. Það er búið að vera svolítið að gera en við höfum alveg getað sinnt þessu.“

„Við vonum að fólk sé með allar klær úti núna að hreinsa niðurföll með því að setja salt og brjóta ís frá þeim svo að vatnið eigi greiða leið í þau. Það er það sem fólk er búið að vera að gera og það er kannski þess vegna sem álagið er ekki meira en ella,“ segir varðstjóri hjá slökkviliðinu í samtali við mbl.is.

„Við höfum ekkert séð af hálkuslysum í dag, ekki ennþá,“ segir yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. 

„Fólk virðist gera sér grein fyrir hversu fljúgandi hált er á götum úti og fer því varlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert