Minnti á það sem þjóðin hefur áorkað

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

„Um hríð hefur lítt verið tíðkað að halda til haga því sem þjóðin hefur áorkað og sumir bregðast jafnvel illa við þegar slíku er hampað; telja gort og vart við hæfi; kaldhæðni gagnrýnan dans einatt vinsælli en lofsamleg ummæli þeirra sem vekja athygli á því sem vel er gert.“ Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í nýársávarpi til þjóðarinnar.

„Áföllin sem fylgdu bankahruni; hörð átök í kjölfarið; reiðin sem lengi bjó í brjósti margra; allt mótaði hina daglegu umræðu með þeim hætti að gagnrýni, oft hatrömm, varð ráðandi; mistök og ávirðingar helsta fréttaefnið.Að mörgu leyti var þetta skiljanleg þróun, viðbrögð við skyndilegu áfalli, en til lengdar getur verið hættulegt að festast í slíku fari, missa sjónar af þeim hornsteinum sem fyrr voru reistir, gildunum sem lengi voru í öndvegi, verkunum sem þokuðu Íslandi smátt og smátt í fremstu röð meðal þjóða heims.

Gagnrýnin umræða er vissulega forsenda þess að lýðræðið virki en vitundin um sameiginlegan árangur er líka kjölfesta sem gerir þjóðum kleift að vinna sigra, halda sínu í hringiðu breytinganna, sækja fram til bættra kjara.Um leið og við þróum áfram þá lýðræðishefð sem á djúpar rætur í íslenskri sögu, gerum aðhald og gagnsæi að grundvelli stjórnkerfis, er nauðsynlegt að gleðjast líka yfir árangrinum sem kynslóðirnar og við sjálf höfum náð.

Þjóð getur aldrei þrifist á gagnrýninni einni saman, þótt læra þurfi af mistökum. Hún verður einnig að halda til haga hinum góðu verkum, heiðra það sem vel var gert, vita hve oft henni hefur tekist að ná og halda til jafns við aðra; hvaða verk skipa henni í fremstu röð.

Þótt umræðan um árangur Íslendinga sé hér heima lítt í tísku er merkilegt að á liðnu ári skyldu tveir af fremstu háskólum Bandaríkjanna og ein virtasta efnahagsstofnun veraldar meta árangur og stöðu Íslands á þann veg að skipa okkur á mörgum sviðum ýmist í fyrsta sæti eða meðal hinna efstu.

Við höfum lengi haft á orði að glöggt sé gests augað og því er fróðlegt að kynnast dómum þeirra sem skoða Ísland úr fjarlægð og setja okkur í samhengi við önnur lönd,“ sagði forseti Íslands.

Ávarpið í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert