„Það er allt dregið í efa“

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar

„Það virðist á stundum sem við sem þetta land byggjum nú um stundir höfum ekki sameiginlegan grundvöll til að standa á. Það er sama hvað sagt er og gert er. Það er allt dregið í efa og stutt er í hugsanir um annarlegan tilgang eða hagsmunapot.“ Þetta sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskups Íslands, í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni.

„Biblían er margar bækur, skrifaðar á mismunandi tímum. Hún er alþjóðleg bók og á erindi við alla menn. Þar er fjallað um allt er viðkemur mannlegu lífi, opinbert líf, einkalíf, fjölmenningarsamfélag, dyggðir og gildi, farsæld, myrkar hliðar lífsins og lausn frá þeim. Biblían á erindi við einstaklinga og samfélög, leitandi fólk og hjálparþurfi, forvitið fólk og fróðleiksfúst. Hún er bókmenntaverk og segir frá nærveru Guðs í heimi mannanna. Hún er trúarbók og kennslubók í því hvað það er að vera maður í hörðum heimi. Hún bendir á kærleikann, sem aldrei fellur úr gildi og er mestur þeirra þriggja, trúarinnar og vonarinnar,“ sagði Agnes.

„Það virðist á stundum sem við sem þetta land byggjum nú um stundir höfum ekki sameiginlegan grundvöll til að standa á. Það er sama hvað sagt er og gert er. Það er allt dregið í efa og stutt er í hugsanir um annarlegan tilgang eða hagsmunapot. Það stafar meðal annars af því að við blasir að ekki hafa allir landsmenn sömu tækifæri til að lifa áhyggjulausu lífi, hvað varðar efnahagslega afkomu. Í fjallræðunni talar Jesús um áhyggjur okkar mannanna. Til að takast á við þær bendir hann á leið sem er sú að snúa sér til Drottins með allt okkar. „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ segir hann.“

„Mesti auður þessa lands er fólkið sem hér býr. Í samfélaginu þurfa að vera aðstæður til að koma öllum börnum til manns og hverjum manni til hjálpar sem er hjálparþurfi. Hver maður, karl eða kona á að búa við þær aðstæður að geta vaxið og þroskast, sjálfum sér til farsældar og náunganum til blessunar. Þau sem hlýddu á Jesú og urðu vitni af kraftaverkum hans hrifust af honum. En það var ekki nóg, því trú þeirra þurfti að þroskast og vaxa. Á sama hátt þarf að búa að íslenskri þjóð að hún fái vaxið og þroskast, bæði á veraldarinnar vísu en ekki síður á andlega vísu. Leyfum leiðtoganum Jesú Kristi að leiða okkur áfram veginn á nýju ári og um framtíð alla. Því mun fylgja blessun og farsæld og fullkomin lífsfylling,“ sagði biskup Íslands.

Prédikun biskups Íslands í heild sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina