Hrærð yfir viðtökunum

Facebook síða Stundarinnar var opnuð á föstudagskvöld.
Facebook síða Stundarinnar var opnuð á föstudagskvöld.

„Við ætlum að stofna fjölmiðil sem er raunverulega frjáls og óháður og getur veitt almenningi sem mestar upplýsingar sem eru ómengaðar af sérhagsmunum,“ segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstýra nýs fjölmiðils, Stundarinnar.

Sagt var fyrst frá Stundinni á föstudagskvöld og að sögn Ingibjargar hafa viðtökurnar verið mjög góðar. Stofnendur Stundarinnar eru auk Ingibjargar þau Elín G. Ragnarsdóttir, Heiða B. Heiðars,
Jón Ingi Stefánsson og Jón Trausti Reynisson sem er ásamt Ingibjörgu ritstjóri en jafnframt framkvæmdarstjóri. Ingibjörg segir að endanleg mynd á ritstjórnina muni koma á næstu dögum, en viðræður standa nú yfir við ákveðna aðila. 

„Við getum ekki gert þetta án stuðnings almennings og ætlum því að opna söfnun á vefsíðunni Karolina Fund sem fer af stað vonandi í dag eða næstu daga. Markmiðið er að safna að minnsta kosti fimm milljónum króna en því meiri stuðning sem við fáum því meira getum við gert,“ segir Ingibjörg. 

Stundin verður með daglega útgáfu á vefnum og svo einnig með prentaða útgáfu. Að sögn Ingibjargar verður tekin afstaða til þess á næstu dögum hversu reglulega sú útgáfa mun koma út. 

Ingibjörg segir jafnframt að eignarhaldi miðilsins verði dreift. „Það verða margir sem munu eiga lítið í miðlinum.“

Eins og áður kom fram var fyrst sagt opinberlega frá Stundinni á föstudag og opnuð Facebook síða. Síðan á föstudagskvöld hefur verið  líkað við síðuna rúmlega sex þúsund sinnum. 

„Við erum hrærð yfir þeim viðtökum sem við höfum fengið nú þegar. Síminn hefur ekki stoppað síðan á föstudaginn og við höfum fengið fjölmarga tölvupósta frá framtíðar áskrifendum. Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum og ég er rosalega þakklát fyrir það.“

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina