Spáði rétt fyrir um lok læknadeilu

Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur, spáði rétt fyrir um lok læknadeilunnar.
Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspekingur, spáði rétt fyrir um lok læknadeilunnar. mbl.is/Þórður Arnar

Stjörnuspekingurinn Gunnlaugur Guðmundsson spáði því í Mannlega þættinum á Rás 1 þann 2. janúar sl. að kjaradeila lækna myndi leysast í dag, 7. janúar. Spáin reyndist rétt, enda var samningur undirritaður á fjórða tímanum í morgun.

Gunnlaugur segir það því ekki hafa komið sér á óvart að lesa fréttirnar í morgun, enda hafi hann verið „að bíða eftir þessu.“

Ekkert dularfullt við spánna

„Ég gerði það sem kallast persónulegt veðurkort fyrir íslenska lýðveldið og staðan var þannig í dag að Satúrnus var 60 gráður Neptúnus og kerfisorka í harmónískri stöðu við velferð. Ég ályktaði út frá því að læknadeilan myndi leysast,“ útskýrir Gunnlaugur sem segir ekkert dularfullt við spá sína, enda sé aðeins um hreina útreikninga að ræða.

Gunnlaugur hefur starfað óslitið sem stjörnuspekingur síðan 1. júlí 1981 og hefur því verið atvinnumaður í faginu í rúma þrjá áratugi. Hann hefur margoft spáð rétt fyrir um atburði, og hafði til að mynda séð efnahagskreppuna fyrir sem skall á árið 2008. Þá spáði hann jafnframt rétt fyrir um lok kreppu árið 1993, nokkrum mánuðum áður en henni lauk.

„Ég er enginn alvitur sjáandi“

Gunnlaugur segist vissulega ánægður með það að spáin hafi reynst rétt, enda geti hann aldrei verið hundrað prósent viss um niðurstöðurnar. „Sem betur fer er ekki hægt að sjá allt og maður er aldrei alveg viss. Ég er enginn alvitur sjáandi, ég er maður sem er að reyna að skilja krafta náttúrunnar,“ segir hann.

Þó segist hann ekki geta neitað næmni sinni, enda finni hann oft hluti á sér. „En það sem margir fatta ekki er að fólk sem er næmt notar oft tæki eins og stjörnuspeki sér til hjálpar. Það er að segja önnur tæki en vísindamenn eða þeir sem ekki eru næmir nota.“

Óhefðbundin vísindi

Gunnlaugur segir stjörnuspeki vera eins konar listvísindi, þar sem mikilvægt er að fara eftir ákveðnum reglum, lögmálum og útreikningum. „Þetta eru vísindi að því leyti að þetta eru útreikningar. En þetta eru ekki hefðbundin vísindi og ég held því ekki fram að ég sé vísindamaður.“

Þá segir hann marga gagnrýna stjörnuspeki án þess að hafa kynnt sér hana, en hann heldur úti heimasíðunni stjornuspeki.is þar sem hann meðal annars fræðir fólk um þessa aldagömlu aðferð í von um að útrýma fordómum. 

Eldur og haftalosun í kortunum

En sér Gunnlaugur eitthvað fyrir um lok eldgoss í kortunum? „Það er erfiðara og flóknara að gera kort fyrir landið en samfélagið, en það er þó mikill eldur í heiminum og verður áfram. Í febrúar er einhver eldsprengja og dagana 7. og 24. febrúar sé ég einhverja þenslu eða opnun.“

Loks segir hann gjaldeyrishöftin verða afnumin í sumar eða haust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert