Samstaða um að efla heilbrigðiskerfið

Samkomulagið handsalað í Stjórnarráðshúsinu í dag.
Samkomulagið handsalað í Stjórnarráðshúsinu í dag. mbl.is/Golli

Fulltrúar Læknafélags Íslands, Skurðlæknafélags Íslands og ríkisstjórnarinnar undirrituðu í dag sameiginlega viljayfirlýsingu um markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Þar segir að með yfirlýsingunni vilja málsaðilar undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu.

Fram kom á blaðamannafundi í Stjórnarráðshúsinu í dag að yfirlýsingin hefði verið unnin af fulltrúum lækna og stjórnvalda samhliða kjaraviðræðum lækna að undanförnu. Samkvæmt samkomulaginu verður meðal annars ráðist í átak í tengslum við stefnu stjórnvalda „um betri heilbrigðisþjónustu með virkum stuðningi lækna og öflugri þátttöku þeirra í stefnumótun sem byggist á bættri starfsaðstöðu og betri nýtingu fjármuna.“

Ennfremur verði stefnt að því að heilbrigðiskerfið búi við hliðstæðan ramma varðandi fjármuni og fjölda starfsmanna og önnur Norðurlönd að teknu tilliti til sérstöðu Íslands sem og mannfjölda og staðhætti. Stýring innan heilbrigðiskerfisins verði að sama skapi sambærileg við það besta sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Haldið verði fast við þá stefnu sem mörkuð var í fjárlögum ársins 2014 þar sem kveðið er á um aukið fjármagn til heilbrigðismála.

Launakjör lækna verði samkeppnisfær

Þá verði starfsaðstaða bætt með byggingu nýs Landspítala, endurnýjun tækja, samtengingu rafrænnar sjúkraskrár, eflingu heimilislækninga og svigrúmi til fyrsta flokks læknismeðferðar. „Tryggt verður að fjárfesting í húsnæði og tækjum sé markviss og skili í senn varanlegri hagkvæmni og betri meðferð sjúklinga til lengri tíma, m.a. með vandaðri stýringu á fjölda og notkun rekstrareininga sem sinna mjög sérhæfðri greiningu og meðferð.“

Sömuleiðis verði samvinna Landspítala, heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og annarra sem veita heilbrigðisþjónustu aukin og heildstæð skoðun framkvæmd á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Opna þurfi möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggi á virkri þjónustu- og verkefnastýringu og skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum fyrir þjónustuna óháð rekstrarformi.

„Launakjör lækna þar á meðal grunnlaun, vinnuálag og vaktafyrirkomulag verði samkeppnisfær og færð nær því kerfi sem tíðkast á Norðurlöndunum að teknu tilliti til þeirrar sérstöðu sem íslensk heilbrigðisþjónusta býr við. Skapaðar verði forsendur til þess að læknar geti unnið á einum stað eingöngu.“

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert