Talsvert um óhöpp í hálkunni

Það var talsvert um umferðaróhöpp í hálkunni í gær.
Það var talsvert um umferðaróhöpp í hálkunni í gær. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Talsvert var um umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu síðdegis í gær og í gærkvöldi en engin slys urðu á fólki. Meðal annars var bifreið ekið á hús í fljúgandi hálku. Lítið tjón varð.

Í gærkvöldi varð umferðaróhapp í miðborginni er ölvaður maður ók aftan á aðra bifreið.  Að sögn lögreglu varð lítið tjón og engin slys en mikil mildi sé að ekki fór verr. Ökumaðurinn var talsvert ölvaður og má eiga von á því að verða sviptur ökuréttindum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu klippti númer af nokkrum bifreiðum í gærkvöldi þar sem þær voru annað hvort óskoðaðar eða ótryggðar. Í einhverjum tilvikum áttu bæði brotin við.

Lögregla segir að enn séu að berast tilkynningar um flugeldasprengingar og minnir lögregla á að um sprengiefni sé að ræða.Annað sem þarft er að hafa í huga er að þótt það sé snjór á götum og í görðum þá getur eldur borist í nálæga hluti, sér í lagi þegar verið er að sprengja í þröngum rýmum.

mbl.is