Innflutt kjöt hækkar í verði

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Hraðvaxandi eftirspurn innflutningsfyrirtækja eftir tollkvóta leiðir til hærra útboðsgjalds og skilar sér í hærra verði til neytenda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum atvinnurekenda. Eftirspurnin jókst gríðarlega frá árinu 2014 til ársins 2015 í ýmsum vöruflokkum.

Til dæmis voru umsóknir um 66 tonn af pylsum fyrir árið 2014 en 123 tonn fyrir árið 2015. Það nemur hækkun upp á 86%. Eins jókst eftirspurn eftir tveimur vöruflokkum osta um 49,4% og 40,54% á milli ára, 38% í nautakjöti, 30% í svínakjöti, 27% í alifuglakjöti og 26,67% í þurrkuðu og reyktu kjöti.

Með aukinni eftirspurn hækkar verðið á tollkvótanum um 20-30% í sumum vöruflokkum og segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, dýrari kvóta valda því að neytendur verða að greiða hærra verð fyrir vöruna.

Kerfið úr sér gengið 

Ólafur segir það mjög snúið fyrir fyrirtæki sem eru að reyna að byggja upp markað í kringum innflutning á landbúnaðarafurðum að eiga það aldrei víst að geta flutt inn vöruna á viðráðanlegum kjörum. Hann segir að oft sé um að ræða vörur sem séu ekki í neinni samkeppni við íslenskar vörur, en þrátt fyrir það hafi stjórnvöld ekki verið til í að gefa neina frekari rýmkum.

„Maður sér að verðið á kvótanum hækkar mest í ákveðnum vöruflokkum. Þar sem verðið hækkar ekki er staðan einfaldlega orðin þannig að fyrirtæki treysta sér ekki til að bjóða hærra verð því þá myndi ekki borga sig að flytja þetta inn,“ segir Ólafur og bætir við að ef innflutningsaðilar myndu bjóða hærra verð þá væri kostnaðurinn orðinn svipaður því að flytja vöruna inn á almennum verndartollum.

„Ég held að menn hljóti að sjá hvað þetta kerfi er hrikalega úr sér gengið og ósanngjarnt, bæði gagnvart fyrirtækjunum sem standa í innflutningi og ekki síður gagnvart neytendum. Þetta síhækkandi verð á þessum heimildum þýðir bara að upprunalega markmiðið, að neytendur fengju vöru á lægra verði og það væri svolítil samkeppni í þessari framleiðslu, er ekki að nást.“

Í næsta mánuði hefjast viðræður Íslands og ESB um frekari útvíkkun á fríverslun með búvörur en viðræðurnar fara fram á grundvelli 19. greinar EES-samningsins. Ólafur telur mikilvægt að þar verði samið um verulega rýmkun á þessum innflutningsheimildum en hingað til hefur öll áhersla stjórnvalda verið á að fá aukið tollfrelsi fyrir íslenskar vörur inn á evrópska markaðinn.

Þessir innflutningskvótar eru allt of litlir. Í alifuglakjöti er 200 tonna kvóti, innanlandsframleiðsla var átta þúsund tonn,“ segir Ólafur og bætir við að þetta sé engin samkeppni sem heitið getur við innanlandsframleiðsluna.

mbl.is