Spyr um rannsóknir á múslímum á Íslandi

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr á Facebook-síðu sinni hvort að bakgrunnur múslíma sem búa á Íslandi hafi verið kannaður og hvort einhverjir íslenskir múslímar hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna. Spyr hann jafnframt hvort að við séum örugg á Íslandi. Flokkssystir hans segist skammast sín fyrir að vera í sama flokki vegna ummæla hans.

Hugleiðingar sínar birtir Ásmundur með mynd frá Danmörku þar sem fólk hefur skilið eftir blóm og borða til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásarinnar á starfsfólk skoptímaritsins Charlie Hebdo í París í síðustu viku.

„Í Danmörku eins og um allan heim er hugurinn með Frönsku [sic] þjóðinni. Viðbjóðsleg hryðjuverk í nafni múslima er fordæmd. Ég velti fyrir mér hvort við séum óhult á Íslandi,“ skrifaði Ásmundur á Facebook-síðu sína í gær.

Því spyr hann hvort að innanríkisráðuneytið eða lögreglan hafi gripið til einhverra ráðstafana til að vernda Íslendinga fyrir slíkum árásum.

„Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima. Mér hefur ekki áður dottið í hug að spyrja slíkra spurninga því ég trúi alltaf á það góða í öllu fólki en það á ekki lengur við þegar öryggi þjóðarinnar er undir,“ segir Ásmundur en gæsalappir utan um orðin „íslenskir múslímar“ eru hans.

Skammast sín fyrir að vera í sama flokki

Skrif Ásmundar hafa sætt gagnrýni, meðal annars frá flokkssystur hans, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrrverandi formanns Heimdalls, sem segist skammast sín fyrir að vera í sama flokki og Ásmundur.

„Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan vegin við þær frelsis og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir. Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti,“ skrifar Áslaug Arna um ummæli Ásmundar á Facebook-síðu sína.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tjáir sig einnig um ummæli Ásmundar á sinni Facebook-síðu. Þar sakar hann Ásmund um að hvetja til ofsókna jafnvel þó hann geri sér ekki endilega grein fyrir því. Það séu ofsóknir þegar minnihlutahópar séu sviptir réttindum sem aðrir njóti.

„Það má vel ræða vopnaeign og viðbragðsáætlanir lögreglunnar enda býst ég fastlega við því að við komum til með að ræða það allt saman mjög mikið og mjög ítarlega á vorþingi og lengur. En það kemur ekki til greina í siðmenntuðu lýðræðissamfélagi að einstaklingar séu til rannsóknar af hálfu yfirvalda fyrir það eitt að aðhyllast ákveðna trú. Það er vegna þess að siðmenntuð lýðræðissamfélög stunda ekki ofsóknir gegn minnihlutahópum,“ skrifar Helgi Hrafn.

mbl.is