Hvalshreðjabjórinn vekur reiði

Gert að Langreyði í Hvalfirði.
Gert að Langreyði í Hvalfirði.

Þorrabjór Steðja, Hvalur 2, hefur vakið reiði erlendra dýraverndunarsinna. Hvalur 2 mun væntanlegur í verslanir þann 23. janúar. Samkvæmt heimasíðu Steðja er hann bruggaður úr hreinu íslensku vatni, byggi, humlum og hvalshreðjum reyktum upp úr þurrum kindaskít sem gefa bjórnum bragð sitt.

Fréttamiðillinn USA Today fjallar um málið og vísar í yfirlýsingu frá The Whale and Dolphin Conservation Society þar sem segir að notkun á hvalkjöti í mat sé ósiðleg og svívirðileg.

„Fólk með réttu ráði myndi ekki drekka bjór bruggaðan úr eistum hvala frekar en það myndi panta sér svipaða drykki gerða úr tígrisdýra-, fíla- eða nashyrningseistum og okkar von er að sjálfsögðu sú að þeir sem heimsækja Ísland mæti þessari nýjustu fórn með þeirri vanþóknun sem hún á skilið,“ segir í tilkynningunni.

Í frétt USA Today segir að langreyðar, hvers eistu eru notuð til bruggunarinnar, séu í útrýmingarhættu. Samkvæmt miðlinum lítur brugghúsið Steðji þó svo á að langreyðar séu ekki í útrýmingarhættu í Norður- Atlantshafi.

20 þúsund flöskur verða framleiddar af bjórnum og fer eitt hvals eista í hvern skammt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert