Forsetinn myndi tapa fyrir Jóni Gnarr

Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr
Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr Samsett mynd/ mbl.is

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, myndi líklega lúta í lægra haldi fyrir Jóni Gnarr ef þeir byðu sig fram í næstu forsetakosningum. Þetta kemur fram nýrri greiningu ráðgjafar- og rannsóknarfyrirtækisins Verdicta á pólitísku landslagi á Íslandi í janúar 2015 að því er fram kemur í Kjarnanum en greiningin byggir á eigindlegum viðtalsgögnum.

„Ef Jón Gnarr býður sig fram verður hann sterkur valkostur. Ólafur Ragnar hefði væntanlega ekki roð við honum því hann hefur á síðasta kjörtímabili talað svo gagnstætt sumum gildum þjóðarinnar, þó að margt fólk sé enn að þakka honum fyrir framgöngu sína í Icesave-málinu,“ segir í greiningunni.

Jafnframt segir að Ólafur þyki hafa talað um of fyrir gamaldags sjónarmiðum, t.a.m. einangrun, og traustara sambandi við Rússa og Kínverja sem minnihluti þjóðarinnar hefur áhuga á. „[Hann] hefur talað sig of mikið frá því að vera fulltrúi nútímans og inn í að vera fulltrúi sjötugra. Hann er því ekki eins sterkur og áður.“

Jón Gnarr er hinsvegar sagður andstæða við sjónarmið sjötugra enda sé hann nútímalegur, einlægur og tali fyrir gildum sem fólk hefur áhuga á að styðja við. „Jón er því sigurstranglegur en er þó langt í frá að vera öruggur. Til eru frambjóðendur sem gætu velgt honum undir uggum og jafnvel sigrað hann.“

Í frétt Kjarnans segir að þar sé Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, helst nefnd til sögunnar. Hún mun höfða betur en Gnarr til valdakerfis sjötugra en á einnig meirihlutafylgi hjá týnda hægrinu.

„Ragna getur höfðað til nánast allra nema þeirra sem vilja bylta þjóðfélaginu. Ragna minnir á Vigdísi því hún er yfirveguð og lætur ekki draga sig á ófriðarbál og það er mikill styrkur að mati kjósenda,“ segir í greiningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert