Sagði sök móðurinnar mögulega

Frá aðalmeðferðini í héraðsdómi.
Frá aðalmeðferðini í héraðsdómi. mbl.is

„Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á að það hafi verið ákærði fremur en móðirin sem hafi valdið dauða barnsins,“ sagði verjandi Scotts James Carcarys fyrir Hæstarétti í morgun og krafðist sýknu fyrir skjólstæðing sinn sem í héraði var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að verða barni sínu að bana.

Áður hefur verið greint frá málflutningsræðu Sigríðar J. Friðjónsdóttur ríkissaksóknara sem krafðist þess að refsingin yrði þyngd úr fimm árum í átta. Sagði hún meðal annars að Carcary hefði verið það ljóst að með því að hrista fimm mánaða gamla dóttur sína gæti hann valdið dauða hennar, enda höfðu hann og móðir barnsins rætt það.

Frétt mbl.is: Fer fram á þyngri refsingu 

Í ræðu sinni sagði Björgvin Þórðarson, verjandi Carcarys fyrir Hæstarétti, að rannsókn málsins hefði þurft að vera rækilegri og ítarlegri. Hann sagði ósannað að barnið hefði látist af völdum hristings og jafnvel þótt það teldist sannað væri ósannað hvenær sá hristingur átti sér stað. „Hann var aðeins búinn að vera einn með barnið í um klukkustund þegar einkennin komu fram. Móðirin var búin að vera ein með barnið í þrjú skipti yfir daginn.“

Hann sagði að ekki væri með nokkurri fullvissu hægt að slá því föstu hvenær einkenni áverka af þessu tagi kæmu fram. Það væri einstaklingsbundið og skýrleikatímabil gæti verið allt að 72 klukkutímar. „Þetta opnar á að áverkarnir kunni að vera af hálfu móðurinnar.“

Björgvin tók sérstaklega fram að þessi málflutningur snerist ekki um að reyna sanna sekt móður barnsins heldur sýna fram á að ekki hefði tekist að sanna sekt Scotts James Carcarys. „Ekkert bendir til þess að áverkarnir hafi átt sér stað eftir klukkan 17.45.“

Móðirin í þrígang ein með barnið

Hvað Björgvin átti við með að ekkert benti til að áverkarnir hefðu orðið til eftir klukkan 17.45 er það að eftir þann tíma var Carcary einn með barnið og þar til hann leitaði ásjár nágranna sinna eftir að það missti meðvitund um klukkustund síðar. Fyrir þann tíma hefðu þau bæði verið heima með barnið en Björgvin benti á að í þrígang hefði móðirin verið ein með barnið á heimilinu án þess að Carcary hefði séð hvað gerðist.

Björgvin vísaði í geðmat sem gert var á Carcary og sagði að niðurstaða þess hefði verið jákvæð fyrir hann. Hann hefði engin merki sýnt um þunglyndi, siðblindu né að hann væri að bæla niður tilfinningar varðandi dauða barnsins. Þá kæmi fram að hann væri ekki ofbeldisfullur heldur þvert á móti. „Ekkert bendir til þess að líklegra sé að hann hafi gert þetta frekar en móðirin. [...] Við vitum ekki hvort móðirin var í afneitun því það var ekki gert neitt geðmat á henni.“

Hann sagði að ekki væri hægt að útiloka að geðmat á móður barnsins hefði leitt í ljós afneitun hennar á því sem gerðist 17. mars 2013.

Sýknað í sambærilegu sænsku máli

Björgvin vísaði einnig í dóm Hæstaréttar Svíþjóðar frá því í október þegar sambærilegt mál var tekið fyrir. Þá höfðu bæði héraðsdómur og áfrýjunardómstól dæmt föður þriggja mánaða gamals barns fyrir að hrista það og með því valda blæðingu í heilabasti og augnbotnum. Faðirinn var einn með barnið og hafði það verið vælið þann daginn.

Maðurinn bar við að barnið hefði orðið máttlaust og hann hefði hrist það létt til þess að reyna lífga það við. Ítarleg skýrsla réttarmeinafræðings lá fyrir í málinu og var afdráttarlaus um það að áverkar barnsins hefðu hlotist af völdum hristings.

Hæstiréttur sýknaði hins vegar manninn með vísan til þess að ekki væru öruggar vísbendingar um að maðurinn hefði valdið áverkunum. Til að mynda hefði verið merki um eldri blæðingu undir heilabasti og þá greindist barnið áður með RS-vírus. Ágreiningurinn var ekki um það hvort það væri skaðlegt ofbeldi að hrista barn heldur hvort með vísindalegri vissu væri hægt að fullyrða um afleiðingar þess.

Engir áverkar á hálsi

Þá vísaði Björgvin til þess að þrátt fyrir að réttarmeinafræðingur hefði komið fyrir dóm og sagt að allar aðrar dánarorsakir en hristingur hefðu verið útlokaðar þá væri ekki að finna neina upptalningu á þeim í krufningarskýrslu. Þannig hefði barnið augljóslega verið með sýkingu umræddan dag og sjúkdóms- og sjúkrasaga foreldranna hefði ekki verið könnuð, þrátt fyrir að Carcary hefði upplýst að saga væri um krampa í föðurfjölskyldunni. Einnig hefði ekki verið framkvæmd rannsókn á mögulegri stökkbreytingu á genum.

Björgvin vísaði einnig til þess að í krufningarskýrslu væri ekki getið um neina álagsáverka á hálsi barnsins en í sænska málinu var dregið í efa að hægt væri að hrista barn á ofbeldisfullan hátt án áverka á hálsi. Einnig hefðu verið merki um gamla innanbastsblæðingu hjá barninu.

Hvað marbletti á barninu varðar sagði Björgvin að ekki væri útilokað að þeir hefðu orðið til við meðhöndlun heilbrigðisstarfsmanna. Meðal annars þurfti að barkaþræða barnið og því ljóst að mikið gekk á. Auk þess hefði marbletta ekki orðið vart fyrr en við aðgerð á barninu og eftir hana.

Afar umdeild mál

Ennfremur fór Björgvin yfir það hversu umdeild mál sem nefnd hafa verið „shaken baby syndrome“ væru. Í raun svo umdeild að heitinu hefði verið breytt bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum í „abusive head trauma“. Flókið gæti verið - og ekki neitt algilt viðmið um - hvaða möguleika þyrfti að útiloka til þess að sannað væri að barn hefði látist af völdum ungbarnahristings. Sumt væri aðeins hægt að greina þegar barnið væri á lífi og annað eftir að það væri látið.

„Til þess að komast að niðurstöðu um greiningu þarf að rannsaka vel alla sjúkrasögu, bæði barnsins og foreldranna og athuga hvort það gæti hafa verið haldið einhverjum sjúkdómi. Það er svo í raun ekki aðeins nóg því hristingur einn og sér getur ekki valdið dauða barnsins.“

Hann sagði að áverkar hlytu að sjást á hálsi ef barn væri hrist harkalega og það væri viðurkennt að meira þyrfti að koma til en aðeins að hrista barnið. Sökum nýrra upplýsinga hefðu mörg mál í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem foreldrar voru sakfelldir fyrir að hrista börn sín til dauða, verið endurupptekin.

Hefur verið í einangrun frá umheiminum

Að lokum sagði Björgvin að ef Hæstiréttur féllist ekki á sýknukröfuna og sakfelldi Carcary fyrir að hafa valdið dauða dóttur sinnar yrði að liggja fyrir sönnun um ásetning. Sú sönnun væri ekki fyrir hendi og því yrði að leggja til grundvallar refsingu að um stórfellt gáleysi væri að ræða.

Vísaði hann hvað refsingu varðaði til fyrra samskonar máls hér á landi en þar hlaut maður 18 mánaða fangelsi fyrir að hrista barn til dauða og var litið til þess að það hefði verið stórfellt gáleysi.

Þá sagði Björgvin að líta bæri til þess að Carcary hefði aldrei verið dæmdur til refsingar. Hann væri breskur ríkisborgari og hefði sætt farbanni í 22 mánuði. Hann ætti hér enga ættingja né vini, hann hefði verið atvinnulaus og raunar í einangrun frá umheiminum á gistiheimili í borginni.

Fór hann því fram á að yrði Carcary sakfelldur yrði dregið frá refsingunni gæsluvarðhald sem hann sætti og einnig farbannið að fullri dagatölu.

Scott James Carcary og dómtúlkur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Scott James Carcary og dómtúlkur í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert