33,5 milljarðar fyrir kirkjujarðir

Biskupsstofa.
Biskupsstofa. Eggert Jóhannesson

Ríkið hefur greitt um 33,5 milljarða króna til þjóðkirkjunnar á grundvelli svokallaðs kirkjujarðasamkomulags frá árinu 1997. Aldrei var gert verðmat á þeim jörðum sem ríkið eignaðist með samkomulaginu og ekki er til listi yfir þær.  Litið er á samkomulagið sem fullnaðaruppgjör á kirkjujörðunum en engu að síður er ríkið skuldbundið til að greiða af jörðunum ótímabundið samkvæmt því. 

Samkomulagið var gert árið 1997 en samkvæmt því gekkst ríkissjóður undir ótímabundna skuldbindingu til þess að greiða laun tiltekins fjölda biskupa, presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Á móti fékk ríkið til eignar kirkjujarðir og eignir sem þeim fylgdu sem það hafði í raun haft í sinni umsjá frá upphafi 20. aldar.

Gert var ráð fyrir að jarðirnar stæðu undir launakostnaðinum, eins og þær höfðu gert fyrir rúmum hundrað árum. Hins vegar var ekki gerð nokkur tilraun til þess að leggja mat á verðmæti þessara jarða áður en samkomulagið var gert og ekki virðist hafa verið skýrt um hvaða jarðir var að ræða. Því liggur ekkert fyrir um hvort jarðirnar hafi í raun staðið undir laununum. Ekkert endurskoðunarákvæði er í því nema um þann fjölda embætta sem ríkið greiðir fyrir.

Agnes Sigurðardóttir, biskup, sagði í pistli sem hún birti á mánudag að vegna kirkjujarðasamkomulagsins væri erfiðara fyrir ríkið að ganga í gegnum fullan aðskilnað ríkis og kirkju en fyrir þjóðkirkjuna. Hún skýrði þó ekki frekar á hvaða hátt.

Í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is kemur fram að ríkissjóður hefur nú greitt samtals 33.525 milljónir króna til þjóðkirkjunnar frá 1998 til 2015 á verðlagi fjárlaga ársins í ár m.v. vísitölu neysluverðs. Framlagið rennur til Biskupsstofu annars vegar og Kristnisjóðs hins vegar. Ofan á þær greiðslur bætist framlag úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar í formi svonefndra sóknargjalda.

Uppfært kl. 16:20

Þorvaldur Víðisson biskupsritari segir að það sé rangt sem fram komi í fréttinni að ekki sé hægt að nálgast upplýsingar um hvaða kirkjujarðir sé um að ræða. Hann bendir á að hér megi nálgast þessar upplýsingar. Þessu er hér með komið á framfæri.

Fyrri frétt mbl.is: Aðskilnaður erfiðari fyrir ríkið en kirkjuna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert