Dreifði kynlífsmynd af barnsmóður sinni

Lögregla taldi að maðurinn myndi raska friði konunnar.
Lögregla taldi að maðurinn myndi raska friði konunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um nálgunarbann á karlmann sem grunaður er um að hafa ráðist á þáverandi sambýliskonu sína og játað hefur að dreifa af henni kynlífsmyndum. Hæstarétti þótti ekkert benda til þess að maðurinn muni beita hana líkamlegu ofbeldi.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögregla rannsaki líkamsárás frá 30. júlí 2014 en umræddur karlmaður liggur undir grun um að hafa ráðist á þáverandi sambýliskonu sína, með því að hafa, á heimili þeirra ýtt henni margsinnis og þegar hún hafi ætlað að henda áfengi hans fram af svölunum hlaupið á eftir henni og ýtt henni á hurð með þeim afleiðingum að sprunga hafi myndast í neðri vör hennar. Hann hafi einnig hent ferðatösku í tíu ára dóttur hennar.

Einnig skýrði konan frá því að í sumarleyfi 27. júlí sama ár hafi maðurinn hent henni niður stiga í viðurvist barnanna. Þegar þetta hafi gerst hafi hann verið með unga dóttur þeirra í fanginu. Hann hafi einnig hent henni inn í eldhús á eldhúsinnréttingu og hafi krafturinn verið það mikill að hún hafi þeyst yfir og höfuð hennar rekist í eldhúsbekkinn hinu megin í eldhúsinu.

Maðurinn neitar sök.

Í greinargerðinni segir ennfremur að maðurinn hafi játað að hafa sent kynlífsmynd af sambýliskonu sinni fyrrverandi á vinkonu hennar og vinnufélaga þann 9. janúar sl., og að hafa sent nektarmyndband af henni á vinnufélaga brotaþola þann 12. janúar sl.

Nálgunarbann veiti ekki vernd

Lögreglustjóri taldi að háttsemi mannsins að undanförnu, þ.e. að dreifa nektarmyndum af konunni, gefi til kynna að hætta sé á að hann muni halda áfram að raska friði hennar njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi konunnar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Héraðsdómur féllst á röksemdir lögreglustjórans og staðfesti nálgunarbann til sex mánaða. Hæstiréttur segir hins vegar: „Jafnvel þótt varnaraðili hafi með háttsemi sinni í hinu síðarnefnda tilviki gróflega rofið friðhelgi einkalífs A verður ekki talið að nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 veiti henni vernd gagnvart slíkri háttsemi. Þá er nokkur tími liðinn frá því atvik 30. júlí 2014 áttu sér stað. Er ekkert í gögnum málsins málsins sem bendir til að varnaraðili hafi eftir það tímamark beitt A líkamlegu ofbeldi eða að hætta sé á að hann muni brjóta gegn henni með þeim hætti.“

Var því ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 13. janúar sl. felld úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert