Mikil virkni enn í Bárðarbungu

Bárðarbunga er á sífellri hreyfingu.
Bárðarbunga er á sífellri hreyfingu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni undanfarnar vikur. Hraunið hefur þykknað mikið en dregið hefur úr virkni á yfirborði. Þetta er niðurstaða fundar vísindamannaráðs í morgun en hann sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Sóttvarnalækni.

„Sig Bárðarbungu var mælt úr lofti á miðvikudag. Rúmmál sigskálarinnar er nú 1,7-1,8 km3 og samsvarar breytingin frá síðustu mælingu því að flæði kviku undan henni nemi um 60 m3 á sekúndu. Mesta sig er um 61 metrar. Jarðhitakatlar í Bárðarbungu hafa stækkað undanfarnar vikur. Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Undanfarnar vikur hefur hún þó verið nokkru minni en hún var fyrstu mánuði umbrotanna. Nú eru 15 dagar frá síðasta skjálfta yfir M5,0 og er það lengsta tímabil á milli skjálfta yfir M5,0 frá því umbrotin hófust í ágúst,“ segir á Facebook-síðu Jarðfræðistofnunar HÍ.

Stærsti jarðskjálftinn frá síðasta fundi Vísindamannaráðs á þriðjudag mældist M4,7 í gær fimmtudag klukkan 03.07. Átta aðrir skjálftar mældust á milli M4,0-4,7 á tímabilinu og 37 skjálftar á milli M3,0-4,0. Alls hafa mælst um 150 skjálftar frá því á þriðjudag. 

Í kvikuganginum hafa mælst rúmlega 65 skjálftar frá því á þriðjudag, sá stærsti M1,5 að stærð. Mjög lítil jarðskjálftavirkni var við Tungnafellsjökul, Öskju og Herðubreið. GPS-mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls sýna áframhaldandi hægan samdrátt í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins. Um 2.200 µg/m3 SO2 mældust á fimmtudag í Reykjahlíð og á Mývatni. Mjög há gildi, um 84.000 µg/m3, mældust við gosstöðvarnar í Holuhrauni á miðvikudag og eru þetta hæstu gildi SO2 sem mælst hafa við jörðu frá því umbrotin hófust.“

mbl.is