Snædís Rán fær flýtimeðferð

Systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur þegar þær tóku …
Systurnar Snædís Rán og Áslaug Ýr Hjartardætur þegar þær tóku við kærleikskúlunni úr hendi Jóns Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Snædísar Ránar Hjartardóttur gegn Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg. Var einnig lagt fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu til flýtimeðferðar í málinu.

Snædís, sem stundar nám við framhaldsskóla, þjáist af arfgengum taugahrörnunarsjúkdómi sem hefur valdið henni sjónmissi, heyrnarmissi og hreyfihömlun. Öll þátttaka hennar í daglegu lífi er háð því að hún njóti aðstoðar túlks.

Á skólatíma nýtur Snædís þjónustu túlks á grundvelli laga um framhaldsskóla auk lögbundins réttar til túlkunar við miðlun þeirra upplýsinga sem fram koma í lögum um réttindi sjúklinga. Að þessum tilvikum slepptum þarf hún að leita til Samskiptamiðstöðvar heyrnalausra og heyrnaskertra um þjónustu túlks.

Samskiptamiðstöðin hefur synjað Snædísi um túlkaþjónustu nema greitt verði fyrir hana og á þeirri forsendu að fjármunir miðstöðvarinnar til umræddrar starfsemi eru uppurnir. Reykjavíkurborg hefur einnig synjað kröfu Snædísar um greiðslu þess kostnaðar sem þá var tilfalinn á þeirri forsendu að það er skylda ríkisins að veita slíka þjónustu og kröfum þar að lútandi ranglega beint að Reykjavíkurborg.

Snædís hyggst því höfða mál og hafa uppi dómkröfur á hendur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þess efnis aðallega að miðstöðinni sé óheimilt að synja henni um endurgjaldslausa túlkaþjónustu. Til vara að synjun Reykjavíkurborgar verði dæmd ólögmæt og að borginni verði gert að greiða útlagðan kostnað, auk miskabóta.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að fallast sé á það með Snædísi Rán að hún hafi stórfellda hagsmuni af málinu auk þess sem það kunni að hafa almenna þýðingu fyrir aðra í sambærilegri stöðu. „Þá er fallist á það með sóknaraðila að henni sé, með tilliti til heilsufars og þróunar sjúkdómsins, brýn þörf á skjótri úrlausn, enda bera gögn málsins ekki með sér að hún geti sjálf staðið undir kostnaði við umrædda túlkaþjónustu þann tíma sem ætla má að rekstur dómsmáls eftir almennum reglum taki. Getur engin áhrif haft á þessa niðurstöðu þótt sóknaraðili hafi ekki tæmt kæruleiðir innan stjórnsýslunnar enda gildir enginn slíkur áskilnaður sem lögbundið skilyrði flýtimeðferðar.“

Frétt mbl.is: „Allir eiga að fá að upplifa ævintýri“

Frétt mbl.is: Systur framúrskarandi fyrirmyndir

mbl.is