Olli misskilningi og tortryggni

Ólafur Ólafsson, sem var hluthafi í Kaupþingi, var dæmdur í …
Ólafur Ólafsson, sem var hluthafi í Kaupþingi, var dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þórður Arnar Þórðarson

Uppbygging viðskipta Kaupþings og sjeiks Mohameds al-Thani með hlut í bankanum olli misskilningi og tortryggni hjá héraðsdómi og ákæruvaldinu. Sérstakur saksóknari hefur átt þátt í að viðhalda þeirri tortryggni með gildishlöðnu orðavali. Þetta sagði verjandi Ólafs Ólafssonar í Hæstarétti í morgun.

Munnlegur málflutningur um Al-Thani-málið svonefnda hélt áfram í Hæstarétti í morgun. Sakborningar eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans. Þeir voru allir viðstaddir málflutninginn í dag, en þeir hlutu allir þunga dóma í héraðsdómi.

Ákært var fyrir lánveitingar tengdar viðskiptum sjeiksins al-Thani við Kaupþing í september 2008 og svo fyrir að láta ranglega líta út að sjeikinn hafi verið í viðskiptunum við Kaupþing.

Reikult vitni með persónulega hagsmuni af niðurstöðu málsins

Viðskipti sjeiks Mohameds al-Thani og Kaupþings með hlutabréf í bankanum voru ef til vill óvenjuleg en það þarf ekki að þýða að þau hafi verið flóknari en leikendur í þeim hafa greint frá, sagði Þórólfur Jónsson, verjandi Ólafs. Einu gögnin um að umbjóðandi hans hafi haft hagnað af viðskiptunum séu framburður eins vitnis sem hafi verið reikull, óstöðugur og það hafi átt ríka persónulega hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Lýsti verjandinn aðkomu Ólafs að viðskiptunum en hann var í vinskap við al-Thani. Hafði hann millgöngu um kaup sjeiksins á hlut í Kaupþingi að beiðni Hreiðars Más. Fjárfestingarfélag Ólafs hafði millgöngu um lánveitingu til sjeiksins vegna kaupanna vegna þess að Hreiðar Már taldi það bestu leiðina til að fá viðskiptin samþykkt hratt og örugglega. Aðkoma félags Ólafs hafi verið til skamms tíma en til stóð að samið yrðu um lánið að nýju eftir þrjá mánuði og þá yrði lánið tryggt með veði í fasteignum al-Thani.

Gildishlaðið orðaval um „sýndarviðskipti“ og „glansmynd“

Ólafur átti aldrei að hafa hagnað af viðskiptunum og framburður sakborninga hafi verið staðfastur hvað það varðaði. Þó að viðskiptin hafi virst óvenjuleg þá þýði það ekki að þau hafi verið flóknari en ákærði hafi lýst. Með öllu séð ósannað að Ólafur hafi hagnast á viðskiptunum. Hann hafi talið sig vera að liðsinna bankanum til góðra verka.

Viðskiptin hafi valdið misskilningi og tortryggni hjá héraðsómi og ákæruvaldinu. Sérstakur saksóknari hafi átt þátt í að viðhaldi henni með gildishlöðnu orðavali um „sýndarviðskipti“ og „glansmynd“.

Þá tók verjandi Ólafs undir málflutning verjenda Hreiðars Más og Sigurðar í gær í ýmsum atriðum. Brotið hafi verið á mannréttindum Ólafs með takmörkunum á aðgengi að gögnum og þá hafi embætti sérstaks saksóknara stuðlað að því að lykilvitnið, sjeik al-Thani, kæmi ekki fyrir dóminn til að gefa skýrslu. Verjendur hafi því ekki haft tækifæri til að spyrja þá annarra spurninga en ákæruvaldið hafi spurt þá í viðtölum við rannsókn málsins.

Krafðist Þórólfur þess að Ólafur yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert