79 ára fallbyssur enn í notkun

mbl.is/Eggert

Skráð vopn hjá Landhelgisgæslunni eru samtals 212 stykki en af þeim eru 120 stykki ekki lengur í notkun. Á meðal þeirra síðarnefndu eru 12 fallbyssur sem eru orðnar rúmlega aldargamlar. Þær elstu eru fimm talsins frá árinu 1892 og voru gjöf frá Dönum.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, við um vopnaöflun og vopnaeign Landhelgisgæslunnar.

Nýjustu vopnin eru 10 MG3 hríðskotabyssur. Þær eru frá árinu 2013 og gjöf frá norska hernum. Þá keypti Gæslan fimm Glock 17 skammbyssur af umboði í Reykjavík árið 2012.

Elstu vopnin, sem er enn í notkun, eru fjórar 40 mm Bofors fallbyssur frá árinu 1936, en þær voru gjafir frá Dönum. Þær eru um borð í varðskipunum þremur, þ.e. í Þór, Tý og Ægi.

Ekki um fjölgun vopna að ræða

Í svarinu segir, að áætlað hafi verið að vopnin frá Norðmönnum, samtals 100 stykki, kæmu í stað þeirra sem hafa verið aflögð og til viðhalds og viðgerðar. Því sé ekki um aukningu á vopnakostinum að ræða, heldur séu það bæði nýrri og öruggari vopn sem henti mun betur starfsemi Landhelgisgæslunnar.

„Um 90% af vopnum Landhelgisgæslunnar (fallbyssur á skip, handvopn og rifflar) eru gjafir frá grannþjóðum, en með því hafa þær sloppið við að farga þeim. Í flestum tilfellum er um að ræða vopn sem viðkomandi þjóðir hafa tekið úr notkun vegna skipulagsbreytinga,“ segir í svarinu.

Þá kemur fram að innkaup, sala, innflutningur og útflutningur vopna, sem og skotfæragerð, sé háð samþykki forstjóra Landhelgisgæslunnar.

Hafa einnig yfir að ráða piparúða og kylfum

Katrín spyr m.a., hversu margir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafi hlotið þjálfun í vopnaburði, hvaða aðili hafi veitt þjálfunina og vottað hana, hversu langan tíma taki þjálfunin og við hvaða gerðir vopna hafi þjálfunin miðast. Einnig hversu oft endurþjálfun fari fram.

Fram kemur í svarinu, að þeir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem séu handhafar lögregluvalds samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna, uppfylla þar til bær skilyrði og starfi við öryggis- og löggæslu hafa hlotið viðeigandi þjálfun í vopnaburði. Í svarinu er nánar upplýst hvernig sú þjálfun gangi fyrir sig, en tekið er fram að öll þjálfun miðist við sjálfsvörn. 

Þá kemur fram í svarinu, að Gæslan hafi yfir að ráða handjárnum, piparúða og kylfum. Handjárn séu notuð á handtekinn einstakling ef hætta sé á flótta eða ætla megi að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti. Piparúða og kylfur sé heimilt að nota þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa einstaklings við handtöku.

Hér má sjá lista yfir öll vopn sem Gæslan hefur …
Hér má sjá lista yfir öll vopn sem Gæslan hefur skráð, bæði vopn sem eru í notkun og vopn sem eru ekki lengur í notkun.
Hér má sjá vopn sem Landhelgisgæslan hefur aflað sér undanfarinn …
Hér má sjá vopn sem Landhelgisgæslan hefur aflað sér undanfarinn áratug.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert