Byggja glæsihótel á Laugavegi

Verktakar komu í gærmorgun fyrir gámi undir gamlar innréttingar í …
Verktakar komu í gærmorgun fyrir gámi undir gamlar innréttingar í húsnæðinu. mbl.is/Baldur Arnarson

Undirbúningur að framkvæmdum við nýtt 60 herbergja hótel á Laugavegi 34a og 36 er hafinn og er stefnt að því að uppbyggingin verði komin í fullan gang öðruhvorumegin við páska. Hótelið verður fyrir vandláta viðskiptavini með vandaðri hönnun og hljóðar kostnaðaráætlun upp á ríflega 800 milljónir. Stefnt er því að opna hótelið fyrir sumarið 2016.

Verkefnið er komið vel á rekspöl en í síðustu viku voru lagðar fram fyrstu teikningar til byggingarnefndar Reykjavíkurborgar.

Verktakar komu í gær fyrir sorpgámi fyrir framan Laugaveg 34a og voru iðnaðarmenn þá að störfum við að rífa innréttingar. Tilheyrðu þær m.a. kránni Monte Carlo sem var á jarðhæð Laugavegar 34a.

Hafa leyfi til flutnings húsa

Á baklóð húsanna stendur til að reisa tvær jafnháar byggingar. Til að rýma fyrir þeim verður m.a. timburhús flutt til vesturs og komið fyrir á Grettisgötu á lóð þar sem nú er bílastæði. Leyfi til flutnings bakhúsanna hefur verið veitt.

Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri félagsins Lantan, sem sér um uppbyggingu nýs hótels, væntir þess að í lok vikunnar, eða í byrjun næstu viku, verði búið að rífa eða fjarlægja bakhús á lóðinni.

Hann segir framkvæmdir munu hefjast að fengnu samþykki skipulagsyfirvalda í Reykjavík.

„Okkar áætlanir gera ráð fyrir að við getum hafist handa um mánaðamótin mars/apríl. Ég vonast til þess að byggingarkrani verði kominn upp á baklóð um miðjan mars og að svæðið hafi þá verið girt af Grettisgötumegin. Sú vinna er að hefjast vegna flutnings húsanna.“

Árni Guðlaugsson byggingartæknifræðingur er forsvarsmaður og byggingarstjóri verkefnisins.

Nefna má að verslun Guðsteins Eyjólfssonar er á Laugavegi 34.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert