Túlki Biblíuna ekki bókstaflega

Þjóðkirkjan les ekki Biblíuna eða játningar sínar bókstaflega og því getur krossapróf sem byggist á bókstafstrú ekki endurspeglað hana, að sögn Árna Svans Daníelssonar, prests í Bústaðarkirkju. Hann gerir athugasemd við krossapróf Vantrúar sem hann segir fyrst og fremst próf í Vantrúarkristni.

Félagið Vantrú, sem hefur það markmið að veita boðun hindurvitna mótvægi, birti á vefsíðu sinni það sem það nefndi krossapróf til að mæla trú. Þar var sagt að prófið hefði verið unnið í samstarfi við Guðvísindastofnun Háskóla Íslands og kenningarnefnd þjóðkirkjunnar.

„Guðvísindastofnun Háskóla Íslands er ekki til. Ég veit ekki hvort að Vantrúarmenn eru að reyna að vera fyndnir og uppnefna Guðfræðistofnun eða guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands en ég held að það segi svo sem mest um þá sjálfa,“ segir Árni Svanur.

Kenningarnefnd þjóðkirkjunnar er til en hún hefur ekki átt í neinu samstarfi við Vantrú um svona próf.

„Kjarni málsins er kannski sá að þjóðkirkjan túlkar Biblíuna og játningarnar ekki bókstaflega heldur skoðar þessa texta alltaf í sögulegu samhengi. Einhvers konar próf sem byggist á bókstafstrú á Biblíuna eða játningar kirkjunnar getur þannig aldrei endurspeglað þjóðkirkjuna. Það segir hins vegar heilmikið um hvernig Vantrúarmenn lesa Biblíuna og sjá þjóðkirkjuna. Ég held þess vegna að þetta sé fyrst og fremst próf í Vantrúarkristni en ekki þjóðkirkjukristni,“ segir Árni Svanur.

Ekki hægt að mæla trú fólks

Þá bendir hann á að ekki sé hægt að mæla trú með krossaprófi. Það sjáist á því hvernig manneskja kemur fram við annað fólk og hvernig hún lifir lífinu.

„Það er grundvallarboðskapurinn sem við sjáum í Biblíunni. Trú er ekki þekkingaratriði. Hún snýst um að treysta guði og þjóna náunganum. Þetta er svolítið eins og ástin í hjónabandi. Hún snýst ekki um hversu margar staðreyndir þú getur þulið upp um makann þinn heldur hvernig þú mætir honum, hvernig þú hugsar til hans og sýnir honum ást í verki á hverjum degi,“ segir Árni Svanur sem veit ekki til þess að slíkt próf hafi verið gert um trú fólks.

Auðvitað sé hægt að kanna þekkingu fólks á kristinni guðfræði og kirkjusögu en Árni Svanur segir að fólki sé ekki raðað upp á skala eftir því hversu kristið það er á grundvelli slíkrar þekkingar.

Fyrri frétt mbl.is: Krossapróf til að mæla trú

Árni Svanur Daníelsson, prestur í Bústaðarkirkju.
Árni Svanur Daníelsson, prestur í Bústaðarkirkju. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina