Rétturinn til að fá að deyja með reisn

Meðan útfarar er beðið er kista hins látna geymd í …
Meðan útfarar er beðið er kista hins látna geymd í líkhúsi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eigum við okkar eigið líf og megum við gera hvað sem er við það? Hvenær og hver ákveður hvort lífið sé þess virði að lifa því eða ekki? Erum við hluti af sköpunarverki almættisins og er það í þess höndum að ráða för um dauða okkar? Þetta eru örfáar þeirra ótal spurninga sem upp koma í tengslum við líknardauða. Siðmennt boðaði til málþings í dag um líknardauða þar sem fjallað var um málefnið frá sjónarhóli heimspekinnar og tvær konur sögðu frá reynslu sinni, en þær eru aðstandendur manna sem völdu að deyja líknardauða.

„Siðmennt á aðild að alþjóðasamtökum húmanista og er öðrum þræði nokkuð heimspekilegt félag þar sem lífsgildin eru meðal annars rædd og hvað felst í því að vera manneskja. Við viljum með þessu málþingi varpa ljósi á og reyna að skilja betur líknardauða, því við höfum fundið að mörgum finnst þetta forvitnilegt og margir hafa ekki endilega mótað sér skoðun en vilja gjarnan skilja betur. Við erum einmitt að koma til móts við það með þessu málþingi,“ segir Jóhann Björnsson, heimspekingur og stjórnarmaður í Siðmennt, en hann var einn af frummælendum málþings sem haldið er í dag á vegum Siðmenntar og heitir: Að deyja með reisn – líknardauði.

Er fólk sjálfrátt gjörða sinna?

„Ég [var] með erindi um líf og dauða frá sjónarhóli heimspekinnar, og í stað þess að predika ákveðið sjónarmið, þá er ég meira að pæla og varpa fram andstæðum sjónarmiðum sem komið hafa fram hjá heimspekingum um þessi mál. Þá getur fólk gripið boltann á lofti og rætt,“ segir Jóhann og tekur dæmi af því hvernig líknardauði kemur sterkt inn á sjálfsákvörðunarrétt fólks. „Margar spurningar vakna sem tengjast þessum rétti, til dæmis spurningin: Á maður sitt eigið líf? Og ef svo er, má maður þá gera hvað sem er við lífið sitt? Eða eru takmarkanir á því? Hvenær og hver ákveður hvort lífið sé þess virði að lifa því eða ekki? Hvernig er það ákveðið? Þetta eru sannarlega ekki einfaldar spurningar og einnig vakna spurningar um það hvort það geti verið að fólk sem kýs þessa leið, í þeim löndum þar sem það er löglegt, sé alveg sjálfrátt gjörða sinna þegar það tekur þessa ákvörðun, eða er það undir þrýstingi frá öðrum? Ótal atriði koma upp sem vert er að ræða.“

Svo fremi sem við sköðum ekki aðra

Jóhann segir að hjá þeim heimspekingum sem tala með líknardauða sé lögð mikil áhersla á sjálfræði einstaklingsins, að við eigum okkar eigið líf og að við getum gert það sem við viljum við það, svo fremi sem við sköðum ekki aðra.

„En í andstæðu sjónarmiði, sem oft er trúarlegs eðlis, þá er sagt að við eigum ekki okkar eigið líf, af því við séum hluti af sköpunarverki almættis og að það sé í höndum almættisins að ráða för um dauðann. Þá er gengið út frá því að við séum eign skaparans.“

Mikil ábyrgð að taka ákvarðanir tengdar líknardauða

Á málþinginu sögðu tvær konur frá reynslu sinni sem aðstandendur þeirra sem valið hafa að deyja líknardauða. Sylviane Pétursson Lecoultre er ekkja krabbameinsveiks manns sem valdi að deyja slíkum dauða árið 2013 í Sviss, en Ingrid Kuhlman er dóttir hollensks manns sem var með þeim fyrstu sem fengu uppfyllta ósk sína um að fá að deyja líknardauða.

„Ég hlakka til að heyra hvað þær hafa að segja, okkur fannst forvitnilegt að það væri fólk búsett á Íslandi sem hefði þessa reynslu og okkur langaði að fá að heyra af því,“ sagði Jóhann í gær.

Jóhann Björnsson.
Jóhann Björnsson. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert