Framganga bankans órannsökuð

Hannes Smárason í héraðsdómi.
Hannes Smárason í héraðsdómi.

„Hvað gerðist þarna í bankanum er algerlega órannsakað. Það var bara ákveðið að fara á eftir mínum umbjóðanda,“ sagði Gísli Hall hrl. í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem málflutningur fór fram í svokölluðu Sterling-máli. Þar er umbjóðandi Gísla, Hannes Smárason, ákærður af sérstökum saksóknara fyrir fjársvik fyrir að hafa án heimildar látið millifæra fjármuni sem námu 2,87 milljörðum króna af reikningi FL Group í Kaupþing Lúxemburg á reikning eignarhaldsfélagsins Fons 25. apríl 2005. Hannes var þá starfandi stjórnarformaður FL Group.

Málflutningur Gísla byggðist á því að ekki hefði verið sýnt fram á að slík millifærsla hafi átt sér stað með lagalega bindandi hætti og ef svo væri hefði Hannes hvergi komið þar nærri. Til þess að millifærslan hefði átt sér stað hefðu ýmis skjöl þurft að liggja fyrir lögum samkvæmt sem hvergi hefðu fundist. Svo virtist sem starfsmenn Kaupþings í Lúxemburg hafi gerst sekir um lögbrot í tengslum við málið. Það væri þeirra að upplýsa hvað hefði gerst í bankanum en ekki umbjóðanda hans. Það hafi hins vegar ekki verið rannsakað. Málið væri fyrir vikið allt hið dularfyllsta. Hins vegar hafi öll aðkoma Hannesar að FL Group snúist um hag félagsins.

Sakaði ákæruvaldið um lögbrot fyrir að leka gögnum

Hannes hefur staðfastlega hafnað því að hafa látið millifæra fjármunina og ennfremur lýst því yfir að hann kannist ekki við gögn tengd málinu sem bera undirskrift hans enda sé langt liðið síðan meint brot hafi átt að eiga sér stað. Gísli lagði áherslu á að það eina sem máli skipti í raun í þessu sambandi væri hvort lagalega bindandi fyrirmæli hafi verið gefin af hálfu Hannesar um að framkvæma millifærsluna. „Það er akkúrat ekkert sem bendir til þess,“ sagði hann. Sönnunarbyrðin í þeim efnum væri alfarið hjá ákæruvaldinu. Í því sambandi skipti engu hver aðdragandi málsins hefði verið líkt og sækjandi í málinu vildi meina.

Þá gagnrýndi Gísli rannsókn málsins harðlega. Bæði hefði rannsóknin tekið langan tíma, sem væri brot á mannréttindasáttmálanum, auk þess sem ákæruvaldið hefði gerst sekt í september 2010 um að leka gögnum til þriðja aðila í tengslum við húsleit hjá Hannesi. Þau gögn hafi síðan ratað í fjölmiðla. Tilgangurinn með því hafi augljóslega verið að skapa „rétta stemningu“ í kringum málið. Líkti Gísli því við lekamálið svokallað þó ekki væri um nákvæmlega eins mál að ræða og sagði að um skýrt lögbrot hafi verið að ræða.

Fór Gísli fram á að Hannes yrði sýknaður af ákærunni eða málinu vísað frá og málskostnaður felldur á ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina