Heyrði einstaka hvísl útundan sér

Sigríður með Leó Frey. Á myndinni eru einnig bræður hans, …
Sigríður með Leó Frey. Á myndinni eru einnig bræður hans, Árni og Viktor.

Sigríður Hrönn Pálsdóttir missti tveggja ára gamlan son sinn, Leó Frey, árið 1996. Í þá daga voru líffæragjafir ekki mikið í umræðunni og foreldar Leós illa undirbúnir til að svara þeirri spurningu sem beint var til þeirra þegar ljóst varð að sonur þeirra myndi ekki ná bata.

Að sögn Sigríðar framleiddi Leó ekki tvö nýrnahettuhormón, en tók lyf og átti gott líf í vændum.

„En hann veikist eina nóttina og það það var farið með hann á spítala strax. Það fer að myndast bjúgur við heila og hann var hafður í öndunarvél í tvo sólahringa, þannig að spítalaferlið var dálítið langt þannig,“ segir Sigríður.

Þegar ljóst varð að Leó myndi ekki lifa, spurðu læknarnir foreldra hans hvort nýta mætti líffæri hans.

„Þeir voru mjög nærgætnir og það var engin pressa. Við fengum að hugsa þetta þarna á spítalanum. Þetta var mjög erfið ákvörðun þannig, við þurftum að hugsa þetta,“ segir Sigríður. Þau hafi alls ekki verið undir það búin að svara spurningunni.

„Maður var ekki undirbúinn fyrir þetta og maður var nýbúinn að missa barnið sitt. En þá hugsaði ég bara að ef ég væri í þeirri aðstöðu að Leó Freyr þyrfti ný lungu eða nýra til að lifa og það væri einhver látinn í næsta herbergi, þá myndi ég ekki vilja fá nei frá viðkomandi,“ segir hún.

Foreldrar Leós, Sigríður og Elís Árnason, sögðu já og í kjölfarið kom teymi frá Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð og sótti líffærin. Samstarfssamningur við Norðurlöndin um líffæragjafir og líffæraígræðslur var þá nýtilkominn.

Hvorki Sigríður né Elís höfðu tekið afstöðu til líffæragjafar en bæði mundu eftir að hafa séð bandarískan sjónvarpsþátt um líffæraþega.

„Ég man sérstaklega eftir einni ungri konu sem hafði verið mikið a hlaupa en þurfti ný lungu eftir að hafa veikst hræðilega, og fékk ný lungu og gat bara  haldið sínu striki,“ segir Sigríður. „Maður hugsaði ekkert um þetta meir, en svo er maður í þessum sporum að þurfa að taka þessa ákvörðun og þá mundi ég eftir þessum þætti og í kjölfarið hugsaði ég að ég myndi ekki vilja fá neitun frá öðrum ef það væri það eina sem þyrfti.“

Bjargaði ungum dreng og 25 ára stúlku

Sigríður segist ekki hafa fengið neina bakþanka eftir að ákvörðunin hafði verið tekin. „Ég hugsaði ekkert þá hvort mér liði vel með þetta eða ekki, en við fengum svo fréttir.. Það var strákur sem var fárveikur á gjörgæslu, eins og hálfs árs, sem fékk nýrun úr honum [Leó Frey] og eftir smá tíma var hann bara kominn á barnadeild, byrjaður að hlaupa og orðinn sprækur. Og 25 ára stelpa sem fékk lungun og braggaðist bara mjög vel,“ segir hún.

Sigríður segist hafa verið ánægð með ákvörðunina um að gefa líffæri sonar síns, en viðurkennir að það hafi farið fyrir brjóstið á sér þegar fólk talaði um að dauði hans hefði þá einhvern tilgang.

„Ég horfði ekki á þetta þannig. En þetta er kannski smá ljós í myrkrinu. Ég er mjög hlynnt líffæragjöf og mér finnst að það þurfi að ræða þetta miklu meira en hefur verið gert. Því svo eru svo margir sem segja að það sé ekki hægt að taka ákvörðun á þessari stundu á spítala, og fyrir aðra, en við gerðum það samt. Og fólk getur ekki sagt svoleiðis nema hafa verið í þessum sporum.“

Sigríður segir að á þessum tíma, fyrir 18 árum, hafi viðbrögð flestra verið góð. „Flestir tóku rosalega vel í þetta en svo heyrði maður útundan sér „ég gæti aldrei gefið líffæri úr barninu mínu“ og þvíumlíkt,“ segir hún.

Hún segir að þrátt fyrir að vel hafi verið staðið að málum bæði af læknum spítalans og þeim sem komu að sækja líffærin, sé vænlegra að vera búinn að gera upp hug sinn áður en til kastanna kemur. „Svo er líka rosalega gott að geta sett sig í spor annarra,“ segir hún.

Hægt er að skrá afstöðu til líffæragjafar á heimasíðu landlæknisembættisins

Leó Freyr var lífsglaður strákur að sögn Sigríðar.
Leó Freyr var lífsglaður strákur að sögn Sigríðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert