Skýrari línur um störf aðstoðarmanna

Hafsteinn Þór Hauksson fór yfir álit umboðsmanns Alþingis og ritaði …
Hafsteinn Þór Hauksson fór yfir álit umboðsmanns Alþingis og ritaði minnisblað. mbl.is

Innanríkisráðherra þarf ef til vill að leggja skýrari línur um störf aðstoðarmanna sinna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, ritaði að beiðni Ólafar Nordal innanríkisráðherra.

Hann fór yfir álit umboðsmanns Alþingis á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Hafsteinn Þór fer yfir helstu niðurstöður umboðsmanns Alþingis í sex liðum. Þar segir meðal annars að ráðherra megi ekki hafa afskipti af rannsókn- og ákvarðanatöku í einstökum sakamálum og hélt fyrrverandi innanríkisráherra sig ekki innan marka þessara heimilda.

Ekki í samræmi við óskráðar meginreglur

Niðurstaða umboðsmanns er að tengsl Hönnu Birnu og hagsmunir hennar af framvindu sakamálsins voru slíkir að samskiptin sem ráðherrann átti við lögreglustjórann brutu í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.

Þá voru viðmið um háttsemi sem ráðherra bar að fylgja í samskiptum við forstöðumann undirstofnunar ekki virt.

Samskipti aðstoðarmanna Hönnu Birnu við lögreglustjórann voru ekki í samræmi við hina óskráðu hæfisreglu stjórnsýsluréttar og þá telur umboðsmaður það hvorki samræmast sjónarmiðum um gagnsæja stjórnsýslu né lagareglum sem eftirlit umboðsmanns Alþingis byggist á að ráðherra eða lögmaður hasn hafi beint samband við hann opinbera starfsmann sem veitt hefur umboðsmanni upplýsingar og krefji viðkomandi skýringa á því sem hann hefur greint umboðsmanni frá.

Beinir engum sérstökum tilmælum til ráðherra

Umboðsmaður Alþingis beinir engum sérstökum tilmælum til innanríkisráðherra í tilefni af niðurstöðum sínum. Þá beinir hann heldur engum almennum tilmælum til ráðuneytisins um tilefni til breytinga á reglum sem undir það heyra. Almennu tilmælin sem umboðsmaður beinir að innanríkisráðuneytinu lúta að því að í framtíðinni verði gætt að þeim ábendingum sem fram koma í álitinu.

Því er það álit Hafsteins Þórs að niðurstaða umboðsmanns kalli ekki á sérstakar ráðstafanir, svo sem endurupptöku mála eða breytingu á reglum. Hann vekur aftur á móti athygli innanríkisráðherra á nokkrum atriðum, meðal annars að tilefni kunni að vera fyrir innanríkisráðherra að leggja skýrar línur um störf aðstoðarmanna sinna.

Eðlilegast væri að leggja þá línu að pólitískir aðstoðarmenn kalli ekki eftir gögnum frá undirstofnunum er varða mál sem eru til stjórnsýslulegarar meðferðar í ráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina