Ekki hætta á gjaldþroti Exista

mbl.is/Hjörtur

Fyrirtaka í SPRON-málinu fór fram í morgun og lögðu verjendur fram gögn í málinu. Fimm fyrrverandi stjórnendur sparisjóðsins eru ákærðir af sérstökum saksóknara fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir lánveitingarheimildir þegar félagið lánaði félaginu Exista tvo milljarða króna án trygginga í september 2008. Hinir ákærðu í málinu eru Guðmundur Örn Hauksson, Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist.

Meðal gagna sem verjendur lögðu fram var sérfræðiálit á fjárhagsstöðu Exista þegar lánveitingin átti sér stað sem að sögn þeirra sýndi fram á gjaldþrot félagsins hafi alls ekki verið líklegt á þeim tímapunkti og ekki veruleg hætta á því að sú staða kæmi upp. Verjendur sögðust ennfremur telja óþarft að kveða til sérstaka matsmenn í þeim efnum en ef saksóknari færi fram á það gerðu þeir ekki athugasemdir við það að því gefnu að spurningar væru orðaðar með tilhlýðilegum hætti.

Þá óskuðu verjendur eftir fresti til þess að skila greinargerð í málinu og var hann vettur og ákveðið að málið yrði aftur tekið fyrir 19. mars. Aðalmeðferð hæfist hins vegar 1. júní í sumar. Þá upplýsti dómarinn í málinu, Pétur Guðgeirsson, að tveir meðdómarar myndu dæma í málinu auk hans, þeir Skúli Magnússon héraðsdómari og Arnar Már Jóhannesson endurskoðandi.

Fréttir mbl.is:

Vildu lengri frest til greinargerðaskrifa

Rannveig Rist neitaði sök

1.289 blaðsíður í SPRON-máli

Snúningurinn í SPRON-málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert