VG stimplaðir sem „á móti“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í Iðnó í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í Iðnó í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Meðal þeirra áskorana sem við, Vinstri græn, þurftum að takast á við þá [árið 2003] voru þau orð að við værum „fúl á móti-flokkurinn.“ Nánast á móti öllu sem þá var ofarlega á baugi, sem var nánast þráhyggjukennd markaðsvæðing allra hluta og algert skeytingarleysi um umhverfismál,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, við upphaf flokksráðsfundar Vinstri grænna sem nú er haldinn í Iðnó í Reykjavík.

Að sögn Katrínar stóð Vinstrihreyfingin – grænt framboð frammi fyrir fleiri áskorunum þetta sama ár þegar hún var kjörin varaformaður flokksins. Í því samhengi nefndi hún álit sumra þess efnis að flokkurinn væri ekki stjórntækur. „Því við féllumst ekki á allar forsendur nútímalegs markaðssamfélags og því myndum líklega setja allt á hausinn um leið og við kæmum nærri stjórn samfélagsins.“

„Og þótti mér báðir þessir frasar hreint ekki sanngjarnir,“ sagði Katrín og bætti við að flokkur hennar hafi að undanförnu gert ýmislegt til þess að sporna gegn „á móti“ stimplinum. Var það m.a. gert með umfangsmikilli auglýsingaherferð á sínum tíma en í henni var áhersla lögð á hin ýmsu mál sem flokkurinn styður og stendur fyrir. Nefndi formaðurinn í því samhengi náttúruvernd, frið og velferð.

„Og það er mín trú að sú barátta hafi hægt og bítandi skilað sér með þeim árangri að í kosningunum 2007 uppskárum við rúm 14 prósent úr kjörkössunum, sem fyrir litlum átta árum þótti mjög mikið fylgi fyrir róttækan vinstri umhverfisverndarflokk á borð við okkur. Hvað varðar það að vera stjórntæk þá skiptir nú kannski mestu að við fengum að spreyta okkur á því vandasama verkefni að koma að ríkisstjórnarsamstarfi. Þar reyndi mjög á flokkinn, undir mjög erfiðum kringumstæðum, sem var mjög lærdómsríkt fyrir okkur öll sem tókum þátt í því en það skilaði líka miklum árangri,“ sagði Katrín. 

Forsætisráðherra enn í stjórnarandstöðu

Í ávarpi sínu kom Katrín einnig inn á gagnrýni álitsgjafa á virkni og sýnileika þeirra flokka sem skipa stjórnarandstöðuna á þingi, en flokkarnir hafa m.a. verið gagnrýndir fyrir heldur veika andstöðu að undanförnu.

„Því er til að svara að í fyrsta lagi þá erum við í stjórnmálum til að berjast fyrir okkar hugsjónum en ekki bara til að vera í andstöðu. Í öðru lagi ákváðum við, þingmenn Vinstri grænna, að við hefðum engan áhuga á því að líkjast þeirri stjórnarandstöðu sem iðkuð var á síðasta kjörtímabili, sem okkur þótti bæði ómálefnaleg og gegndarlaus á köflum,“ sagði Katrín og bætti við: „Stundum held ég að forsætisráðherra sé enn í stjórnarandstöðu við Steingrím og Jóhönnu og gleymi því að hann er kominn í aðra vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert