Próf Bláa naglans geti skapað falskt ör­yggi

Jóhannes V. Reynisson, stofnandi Bláa naglans, með blá­an nagla.
Jóhannes V. Reynisson, stofnandi Bláa naglans, með blá­an nagla. mbl.is/Rax

Krabbameinsfélag Íslands telur að próf sem Blái naglinn sendir fimmtugum Íslendingum, og kynnir sem hópleit að ristilkrabbameini, uppfylli ekki skilyrði sem gilda um hópleit. Prófið sé ekki nægilega áreiðanlegt og aðferðin ekki heldur.

Í ályktun sem stjórn Krabbameinsfélagsins hefur samþykkt segir að í notkun prófsins felist jafnframt sú hætta að stór hluti þeirra sem raunverulega eru með blóð í hægðum eða jafnvel ristilkrabbamein taki prófið og fái þá niðurstöðu að þeir hafi ekki vísbendingar um krabbamein og séu ekki í hættu. Þetta nefnist falskt öryggi sem sé þekkt hugtak og notað sem eitt viðmiða um gæði skimunar. Of mikið af röngum svörum sé augljóslega hættulegt.

Krabbameinsfélagið tekur jafnframt fram í ályktuninni að vegna algengs misskilnings sé Blái naglinn ekki hluti af Krabbameinsfélaginu. 

„Krabbameinsfélag Íslands hefur rekið krabbameinsleit í áratugi og býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviðinu og hafði efasemdir um þetta framtak Bláa naglans. Krabbameinsfélagið telur það skyldu sína að beina slíkum ábendingum til heilbrigðisyfirvalda, og Embætti landlæknis hefur nú sent frá sér yfirlýsingu um málið þar sem tekin eru af öll tvímæli um takmarkað notagildi prófsins. Stjórn Krabbameinsfélagsins tekur undir yfirlýsingu Embættis landlæknis og bendir á ofangreindar staðreyndir,“ segir í ályktuninni.

Bent er á að Krabbameinsfélagið hafi nú hafið undirbúningar hópleitar að krabbameinum í ristli, meðal annars vegna fjárstuðnings frá líftryggingafélaginu OKKAR líf. Undirbúningur felst meðal annars í því að safna margvíslegum gögnum og vinna úr þeim til þess að leggja grunn að árangursríkri hópleit að ristilkrabbameinum hér á landi. Hefur heilbrigðisráðherra fagnað þessu framtaki og verður þetta verk unnið í samráði við velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis, segir í ályktuninni.

Þar segir einnig:

„Krabbameinsfélagið vinnur ötullega að forvörnum og hefur ekki síst lagt áherslu mörg undanfarin ár á forvarnir gegn ristilkrabbameini; búið til fræðsluefni, bæklinga, fræðslumynd og staðið fyrir fræðslufundum og árvekni af ýmsu tagi. Í Mottumars síðasta árs var sjónum beint að þessu krabbameini sérstaklega og svo verður aftur í ár. Þá hefur félagið undanfarið ár sent öllum fimmtugum bréf þar sem hvatt er til árvekni vegna þessa krabbameins.“ 

Sjá frétt mbl.is: Varast ber Bláa naglann

mbl.is