Vopnareglur lögreglu birtar í fyrsta sinn

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur ákveðið að birta reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem þáverandi dómsmálaráðherra setti hinn 22. febrúar 1999. Hingað til hefur leynd hvílt yfir reglunum.

Innanríkisráðherra hefur jafnframt ákveðið að birta reglur um valdbeitingu handhafa lögregluvalds hjá Landhelgisgæslu Íslands og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem þáverandi dómsmálaráðherra setti 6. júlí 2007.

Áður hafði verið óskað eftir því að ráðuneytið birti reglurnar og var ákvörðun stjórnvalda um að afhenda reglurnar ekki til að mynda kærð á grundvelli upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd upplýsingamála hafnaði því seinasta vor að veita einstaklingi aðgang að reglunum vegna þess að þær vörðuðu öryggi ríkisins.

Sagði meðal annars í úrskurði nefndarinnar að yrði almenningi veittur aðgangur að reglunum kynni það að nýtast þeim sem hygðust fremja alvarleg afbrot og draga jafnframt úr fælingarmætti lögreglunnar. Birtingin myndi raska almannahagsmunum.

Reglurnar munu birtast á næstunni í Stjórnartíðindum.

Reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna

Reglur um valdbeitingu handhafa lögregluvalds hjá Landhelgisgæslu Íslands og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert