Handboltakonur björguðu lífi

Anna Úrsúla ásamt Guðmundi Helga.
Anna Úrsúla ásamt Guðmundi Helga. mbl.is/Júlíus

Handboltakonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er skyndihjálparmaður ársins, en verðlaunin voru veitt í dag á 112 deginum. Úrsúla, ásamt liðsfélögum sínum í Val, bjargaði lífi manns sem hné niður í Valsheimilinu síðasta vor. 

112 dagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land í dag, og af því tilefni var athöfn í Björgunarmiðstöðinni við Skógahlíð þar sem veitt voru ýmis verðlaun og viðurkenningar. 

Skyndihjálparmaður Rauða krossins var útnefndur og ungum innhringjanda í 112 var veitt sérstök viðurkenning sem og Neyðarmanni ársins. Að auki voru börnum afhentar viðurkenningar í eldvarnagetraun sem er hluti eldvarnarátaks Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Jafnframt tóku Dr. Gunni, Friðrik Dór og Viðbragðssveitin 112 lagið, en sveitina skipa Sigurbergur Kárason, svæfingalæknir á Landspítalanum, Ævar Aðalsteinsson,björgunarsveitamaður í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og Örvar Aðalsteinsson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Námskeiðið skipti sköpum

Skyndihjálparmaður Rauða krossins að þessu sinni er handboltakonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Var hún verðlaunuð fyrir skjót viðbrögð er Guðmundur Helgi Magnússon, hné niður í Valsheimilinu síðasta vor.

„Ég hef farið á skyndihjálparnámskeið, ég vinn hjá Eimskip og þau þar eru rosalega dugleg að halda þannig fyrir starfsfólkið,“ segir Anna Úrsúla í samtali við mbl.is. „Það hjálpaði svo sannarlega í þessum aðstæðum.“

Við athöfnina í dag sagði Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi frá því hvernig Anna Úrsúla stökk upp til mannsins er hann hneig niður. Sagði hann að hún hafi klifrað yfir pallanna „sem voru eins og bjarg“.

Voru rólegar og unnu kerfisbundið

- En hvað hugsaði Anna Úrsúla þegar hún sá manninn hníga niður? 

„Ég hugsaði fyrst að hann hlyti að hafa bara dottið og meitt sig. En svo kom hann ekkert upp aftur nokkrum sekúndum síðan þannig ég skaust þarna upp til að sjá hvað var í gangi. Í raun og veru sá ég strax hvað ég gat gert til þess að láta honum líða betur. Það blæddi rosalega mikið úr höfðinu á honum og ég reyndi að skorða hann. Svo kallaði ég á stelpurnar því ég vissi að ég gæti ekki stundað lífgunartilraunir ein og við hjálpuðumst að.“

Anna Úrsúla segir að hópurinn hafi verið yfirvegaður og að það hafi hjálpað til. „Við vorum bara mjög rólegar og unnum kerfisbundið í því sem við vorum að gera.“

Aðspurð hvort að henni finnist mikilvægt að fólk fari á skyndihjálparnámskeið svarar Anna Úrsúla því játandi. „Já, ég tel að það sé mikilvægt. Það sannar sig í atvikum eins og þessu, við vorum nokkrar í hópnum sem höfðu farið. Mér finnst þetta mikilvægur grunnur.“

Anna Úrsúla hrósar einnig hjartastuðstæki sem var á svæðinu sem liðsfélagi hennar, Rebekka Rut Skúladóttir notaði á manninn. 

„Þetta tæki er alveg ótrúlegt. Mér finnst að það ætti að vera sýnilegra í sundlaugum og íþróttahúsum því þetta er snilldartæki. Það gerði bara allt fyrir okkur.“

Góð tilfinning og mikill heiður

Neyðarlínan útnefndi í dag Guðjón Hólm Gunnarsson sem Neyðarvörð ársins. Eru þau verðlaun valinn af þeim sem starfa við Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. 

Guðjón hefur starfað hjá Björgunarmiðstöðinni í tæp níu ár. Hann segir að starfið sé mjög gefandi. 

„Það var svona ákveðinn draumur í æsku að vinna við eitthvað svona. Þetta er mjög gefandi starf. Maður væri nú varla búinn að vera í þessu í níu ár nema maður hefði áhuga og fyndist þetta gefandi,“ segir Guðjón.  

„En að fá þessa viðurkenningu er mjög góð tilfinning og mikill heiður.“

Hinn 13 ára gamli Jason Ýmir Jónasson hlaut einnig viðurkenningu í dag en hann sá konu falla í götuna í óveðri og fótbrotna í óveðri í desember. Hann fór út og sinnti konunni, hringdi eftir aðstoð og hlúði að henni þar til sjúkralið mætti á staðinn. Mbl.is heimsótti hann í dag og viðtal við hann má sjá hér. 

Börnum voru afhentar viðurkenningar í eldvarnagetraun sem er hluti eldvarnarátaks …
Börnum voru afhentar viðurkenningar í eldvarnagetraun sem er hluti eldvarnarátaks Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. mbl.is/Júlíus
Guðjón Hólm Gunnarsson er Neyðarvörður ársins.
Guðjón Hólm Gunnarsson er Neyðarvörður ársins. mbl.is/Júlíus
Jasoni Ými Jónasssyni úr Setbergsskóla í Hafnarfirði var veitt viðurkenning.
Jasoni Ými Jónasssyni úr Setbergsskóla í Hafnarfirði var veitt viðurkenning. mbl.is/Júlíus
mbl.is/Júlíus
mbl.is