Lágmarkshækkun verði 35.000 kr.

mbl.is/Ernir

Flóafélögin hafa lagt fram launakröfur sínar en kröfugerð samninganefndarinnar var samþykkt einróma á fundi í gær. Félögin vilja að gerður verði samningur til eins árs og að lágmarkshækkun í launatöflu verði 35.000 krónur. Kröfugerðin var afhent Samtökum atvinnulífsins í dag.

Kröfur samninganefndar Flóafélaganna eru eftirfarandi:

  • Að gerður verði kjarasamningur til eins árs

  • Að lágmarkshækkun í launatöflu verði 35 þúsund krónur

  • Að neðstu tveir launaflokkar verði felldir niður þó þannig að lægsta upphafstalan verði 240.000 krónur

  • Að launataflan verði lagfærð með því að auka aftur bil á milli flokka og þrepa

  • Mánaðarlaun fyrir dagvinnu utan launatöflu hækki að lágmarki um 33.000 kr. miðað við fullt starf. Dagvinnu tímakaup hækki samsvarandi • Desember- og orlofsuppbót taki hækkunum

  • Eingreiðsla mæti þeim launahækkunum sem varð umfram almennar kjarasamningshækkanir á síðasta samningstímabili

  • Viðræður um aðal- og sérkjarasamninga fari fram samhliða launaviðræðum

Fram kemur á vef Eflingar, að mikil samstaða hafi verið á fundinum í gær. Þar hafi verið rifjaðar upp þær grundvallarforsendur sem hafi legið fyrir þeim kjarasamningum sem samþykktir voru síðast en það var áhersla á aukinn kaupmátt með hófstilltum launahækkunum allra samtaka launafólks.

Þá segir að sú stefna hafi verið þverbrotin af samninganefndum ríkis og sveitarfélaga og því byggist kröfugerð Flóafélaganna á kröfu um leiðréttingu launa og jafnræði félagsmanna stéttarfélaga á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert