Kaupþingsmenn sakfelldir

Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már …
Í efri röð eru þeir Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson. Í þeirri neðri eru Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur sakfellt stjórnendur og eigendur Kaupþings í Al Thani-málinu. Hreiðar Már Sigurðsson var dæmdur fimm og hálfs árs fangelsi og Sigurður Einarsson í fjögurra ára fangelsi. Ólafur Ólafsson hlaut fjögurra og hálfs árs dóm og sömuleiðis Magnús Guðmundsson.

Dómur yfir þeim tveimur síðastnefndu var þyngdur. Vikulangt gæsluvarðhald sem Magnús var úrskurðaður í tengslum við málið er dregið frá dómnum.

Sakborningar voru ekki viðstaddir dómsuppkvaðninguna.

Hreiðar Már er dæmdur til að greiða 24,7 milljónir króna í sakarkostnað, Sigurður 14 milljónir, Ólafur 17,7 milljónir króna og Magnús 20 milljónir.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari gaf út ákæru í Al Thani-mál­inu 16. fe­brú­ar 2012 á hendur fjórmenningunum fyr­ir lán­veit­ing­ar tengd­ar viðskipt­um sj­eiks­ins Al Thani við Kaupþing í sept­em­ber 2008 og svo fyr­ir að láta rang­lega líta út að sj­eik­inn Mohamed Al Thani hafi verið í viðskipt­un­um við Kaupþing. Kaupverðið var 25,7 milljarðar króna en tveimur vikum síðar komst Kaupþing í þrot.

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi þá í desember 2013 fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um og fyr­ir markaðsmis­notk­un, með þætti sín­um í sölu á 5,01% hlut til Mohameds Al Than­is, sj­eiks frá Kat­ar, rétt fyr­ir hrun.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, var dæmdur í fimm ára fangelsi, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hlaut þriggja og hálfs árs dóm og Ólafur Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans, var dæmdur í þriggja ára fangelsi. 

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og í lok janúar á þessu ári fór fram munnlegur málflutningu fyrir Hæstarétti. Þar fór Björn Þorvaldsson saksóknari fram á að Hæstiréttur þyngdi fangelsisdómana. Verjendur sakborninga kröfðust hins vegar sýknu eða að málinu yrði vísað frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert