57 dagar og 1130 kílómetrar

Einar Torfi Finnsson, fjallaleiðsögumaður, ætlar ekki að eyða næstu jólum á sama stað né heldur með sama fólki og síðustu jólum. Því þeim eyddi hann í gönguskíðaferð á suðurpólnum fjarri fjölskyldunni.

Þann 15. nóvember lagði Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður af stað í ferðalag á suðurpólinn og kom ekki heim fyrr en 11 vikum síðar, þann 29. janúar sl. Ferðin tókst vel og er Einar mjög ánægður með ferðalagið en það hafi tekið á. Með Einari á ferðalaginu um suðurskautið voru Kanadamaður, Breti og Ástrali.

Fyrst lá leiðin til Punta Ar­ena í Síle en þann 24. nóv­em­ber, á fimmtán ára afmælisdegi Helgu Bryndísar, dóttur Einars, hófst skíðaferðalagið sjálft. Um sam­starfs­verk­efni Íslenskra Fjalla­leiðsögu­manna og Advent­ure Consult­ants (AC) var að ræða og var Einar Torfi fararstjóri í ferðinni.

Ein­ar er einn stofn­enda Íslenskra fjalla­leiðsögu­manna og hef­ur verið leiðsögumaður í fjöl­mörg­um ferðum um há­lendið og Græn­land. Meðal ann­ars hef­ur hann farið nokkr­ar ferðir á göngu­skíðum með hópa yfir Sprengisand og yfir Vatna­jök­ul. Eins hef­ur hann farið þris­var yfir Græn­lands­jök­ul, nokkr­ar um aust­ur­hluta Græn­lands auk fleiri ferða á Græn­landi með ferðamenn. Þetta var hins vegar fyrsta pólferð Einars og getur hann alveg hugsað sér að sækja suðurpólinn heim aftur en kannski ekki alveg strax.

Í frábæru formi en kannski ekki nógu góðir á skíðum

Einar hafði ætlað sér að leggja af stað með hópinn daginn áður en ákvað að taka einn dag í að þjálfa leiðangursmenn í að tjalda við þær aðstæður sem biðu þeirra, ganga frá búnaðinum og gönguna sjálfa.

Hópurinn þekktist ekkert fyrir ferðina en einn þeirra hafði áður ferðast með Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum, bæði hér á landi og Grænlandi. Hann var mjög vel búinn undir ferðalagið en hinir síður. Að sögn Einar vantaði ekkert upp á að þeir væru í nægjanlega góðu formi heldur frekar skíðamennsku og tjaldlífi af þessari gerð. Hann segir að þetta hafi þýtt það að tvímenningarnir hafi þurft að hafa meira fyrir ferðalaginu en þeir hafi hins vegar haft þá seiglu sem þarf til og komist á áfangastað án vandkvæða.

„Það bætti ekki úr skák að fyrstu dagana var skyggnið lélegt og hvasst. Þegar við lögðum af stað var 17 stiga frost og sex vindstig, 12-15 metrar á sekúndu, og það er kalt,“ segir Einar.

Á sprungusvæði í roki og skafrenningi

Við þessar aðstæður þurfti hópurinn að ferðast yfir sprungusvæði, það er í roki og skafrenningi. Einar lét því alla í sigbelti og tengdi þá saman með línu þegar þeir skíðuðu þar yfir með búnaðinn á sleða, svo­kallaðri púlku. Hann segir það gert í öryggisskyni en sprungurnar þarna voru allar snjófylltar og rákust þeir aldrei á opna sprungu.

Aðspurður um hvernig hafi gengið að tjalda við þessar aðstæður segir Einar að fyrstu dagana hafi þeir sett upp skjólvegg áður en tjaldað var til þess að geta unnið í meira næði við tjöldin.

„Það er talsverð vinna að gera slíkan skjólvegg og tekur rúman hálftíma. Ég hef ekki hannað marga hluti um ævina en við vorum með okkur sérstaka skóflu sem ég hannaði til þess að nota í vindpökkuðum snjó eins og er á þessum slóðum og á Grænlandi. Þá líkist skóflan reku og er bein niður. Þetta flýtir fyrir því áður þurfti maður að saga með snjósög til þess að búa til góða köggla. Kanadamaðurinn var góður í raða kögglunum upp í boga og fékk hann það hlutverk við bygginguna. Slíkir skjólveggir brjóta vindinn mjög vel og ef skjólveggurinn er góður þá ver hann tjaldið mjög vel,“ segir Einar.

Fikruðu sig yfir 10 metra breiða sprungu á snjóbrú

Hann átti ekki von á því að þurfa að leiða hópinn í gegnum annað sprungusvæði á ferðalaginu en raunin var önnur því eftir að hafa hitt Norðmann sem var fararstjóri fransks pars á pólinn ákvað hann að fara að ráðleggingum Norðmannsins og fara aðra leið en ætlunin var.

„Þetta leiddi okkur beint inn á eitt versta sprungusvæði sem ég hef upplifað en í ljós kom að við þurftum meðal annars að fara yfir sprungu sem var tíu metrar að breidd. Við vorum búnir að senda frá okkur sigbeltin til þess að létta farangurinn sem við drógum á eftir okkur á púlkunum enda áttum við að vera búnir að fara yfir sprungusvæðin á leiðinni,“ segir Einar.

Til þess að fara yfir urðu þeir að fikra sig yfir snjóbrú með nýlegum snjó og var brúin þess fyrir utan svolítið sigin. Einar batt reipi um sig og fór einn yfir snjóbrúna og bjó til tryggingar fyrir hópinn. Síðan dró hann allar púlkurnar yfir og í kjölfarið fóru þeir, einn og einn yfir brúna.

Aðspurður segir Einar að hann hafi í raun ekki verið mjög hræddur en auðvitað verði að fara eins varlega og hægt er við aðstæður sem þessar. Skömmu síðar beið þeirra heldur mjórri sprunga eða 5-8 metrar að breidd. „Þetta var vont, bæði fyrir mig sem fararstjóra og að hafa í stað þess að treysta eigin dómgreind treyst á einhvern annan. En ég lærði af þessu,“ segir Einar.

Ekki einhæft og einmannalegt

Dagarnir voru langir á ferðalaginu sem tók 57 daga. Yfirleitt vöknuðu þeir um sexleytið en strax í upphafi ferðar setti Einar upp ákveðna verkaskiptingu og hver leiðangursmanna hafi ákveðin störf á sinni könnu. Þeir lögðu yfirleitt af stað á gönguskíðunum um hálf níu á morgnana og gengu í fjórum lotum sem hver tók tæpar tvær klukkustundir. Yfirleitt var komið náttstað á sjötta tímanum. Þá var tjaldað, klósettaðstaða sett upp og eldað. Þeir gistu tveir og tveir í tjaldi en annað tjaldið var stærra og þar elduðu þeir og borðuðu saman.

Einar svarar spurningu blaðamanns neitandi um hvort ferðalagið hafi ekki oft verið einhæft og heldur einmannalegt. „Áður en þú leggur af stað í svona ferð setur þú þig í ákveðnar stellingar. Skiptir þar engu hvort um er að ræða matinn, félagana eða gönguna. En ég viðurkenni að mig var nú farið að dreyma um almennilega steik undir það síðasta,“ segir Einar.

Hann segir að það hafi líka haft áhrif á hann að skömmu áður en hann fór í ferðina hafi hann misst mömmu sína en hún var jörðuð viku áður en hann lagði af stað frá Íslandi.

„Mér varð mjög oft hugsað til hennar og fjölskyldunnar og ýtti að sjálfsögðu undir söknuð eftir þeim sem standa mér næst,“ segir Einar.

Múslíið hefur ekki ratað aftur á diskinn

Meðal þess sem þeir borðuðu í ferðinni var þurrmatur sem þeir fengu frá Nýja-Sjálandi. Einar segir að maturinn hafi ekki verið neitt sérstakur og undir það síðasta hafi hann þurft að passa upp á að allir borðuðu nægjanlega mikið af aðalréttinum til þess að hafa orku fyrir átök dagsins. Eins hafi verið of mikið af sterkum mat sem er ekki mjög sniðugt á ferðalagi þar sem varaþurrkur er daglegt brauð. Að sögn Einars kenndi ýmissa grasa í matnum sem þeir borðuðu í ferðinni og var meðal annars snæddur vestfirskur harðfiskur og alls konar orkuríkur matur.

„En við fengum aldrei leið á múslínu sem við borðuðum á hverjum morgni. Ég viðurkenni samt að ég hef ekki fengið mér múslí síðan ég kom heim þrátt fyrir að hafa yfirleitt borðað múslí morgunmat áður en ég fór í ferðina,“ segir Einar sem léttist um sjö kíló í ferðinni. Hann léttist minnst í ferðinni en sá sem missti mest léttist um 12 kíló.

Snérist um að koma hópnum  á leiðarenda ekki bara lengra á morgun

Í gönguskíðaferð sem þessari, heild­ar­vega­lengd­in er um 1100 km og hækk­un­in um 2.800 metr­ar, er að sögn Einars algjört grundvallaratriði að spenna aldrei upp hraðann á hópnum. „Verkefnið er að koma þeim alla leið, ekki að koma þeim lengra á morgun. Ég var alltaf að hugsa um að ég mætti aldrei ganga á þá þannig að uppsöfnuð þreyta færi að hrjá hópinn. Einn úr hópnum er ofurhlaupari (stundar langhlaup sem eru 100 km og lengri) og stundum vildi hann lengja dagleiðarnar en það kom aldrei til greina því það hefði komið niður á okkur síðar,“ segir Einar en hann telur að það sé kannski hægt að fara hraðar í byrjun ferðalagsins en þeir gerðu en alls ekki undir lokin.

Mjög snemma í ferðinni fékk einn kalsár á læri sem kom Einari á óvart því það var ekki á þeim tíma þar sem aðstæður voru verstar. Sá hinn sama varð fyrir því óláni að veikjast í ferðinni en Kanadamaðurinn, sem er læknir, skellti í hann sýklalyfjum þannig að það kláraðist á tveimur dögum. Læknirinn kól á nefinu en ekki er um alvarlegt kal að ræða. Einn ferðafélaganna hafði kalið áður á fingrum þannig að hann fann verulega til þegar það var mjög kalt. „Honum var mjög illt í fingrunum í verstu kuldunum en háræðar skemmast við kal og erfitt að koma hita í puttana,“ segir Einar sem slapp sjálfur við kal í ferðinni.

Spurður um það erfiðasta við ferðina þá er Einar fljótur að nefna aðskilnað við fjölskyldu og skaföldurnar.

Hundruð kílómetra af leiðinni nán­ast stöðugar skaföldur sem eru mjög erfiðir yf­ir­ferðar og erfitt að draga púlk­una þar yfir.

Kargaþýfi á 83. gráðu

„Skaföldurnar voru skelfilegar og rosalega erfiðar á milli 83. og 84. breiddargráðu. Því þrátt fyrir að þær eru í raun og veru nánast stöðugar allt frá byrjun skíðagöngunnar þá eru þær litlar og sæmilegar yfirferðar í upphafi. Svo fóru þær stækkandi og í kringum þegar við vorum komnir yfir 82. breiddargráðu fóru þær ört stækkandi.

Við fengum birgðir suður af 82. gráðu og ég varð hissa á því að flugmanninum hafi tekist að lenda þar því þetta var eiginlega eins og kargaþýfi. Um miðja 82 gráðu og allt til loka þeirrar 84. var þetta mjög erfitt. Ekki bætti úr skák að tvo daga var algjör snjóblinda á meðan við paufuðumst áfram í skaföldum sem eru margar hverjar yfir tveir metrar,“ segir Einar.

Eftir jólin skánaði færið og fékk hópurinn frábæra tíu daga eftir jól og fóru þeir rúma 250 km á tíu dögum. Að kvöldi 4. janúar voru þeir komnir á þriðju birgðastað og tóku einn dag í hvíld þar. Síðustu kílómetrana sóttist ferðin hægt því í svona miklum kulda, 20-30 stiga frosti, verður snjórinn svo harður að það er erfitt að draga púlkuna. Flesta dagana var frostið á bilinu 25-28 stig á þessum hluta leiðarinnar.

Má bjóða ykkur kaffi eða te?

Að kvöldi 19. janúar var áfanganum náð, í tjaldbúðum Antarctic Logistics & Expeditions LLC (ALE) sem annast þjónstu við ferðamenn sem fara á suðurpólinn, skammt frá banda­rísku rann­sókn­ar­stöðinni Amundsen-Scott á suður­póln­um.

„Þetta var afar sérstakt,“ segir Einar og bætir við. „Eftir gönguskíðaferð sem tók um átta vikur komum við að tjaldi ALE. Þar kemur út maður sem reyndist vera kokkurinn á staðnum. Hann spurði hvort það mætti bjóða okkur upp á kaffi eða te en við vorum fljótir að biðja frekar um bjór sem við fengum að sjálfsögðu. Inni í tjaldinu var um 15 stiga hiti en fyrir utan var 30 stiga frost. Enda þegar maður opnaði hurðina á tjaldinu, gaus upp gufumökkur.“

Daginn eftir heimsóttu þeir rannsóknarstöðina en vegna þess að tíminn er afstæður á þessum slóðum þá er rannsóknarstöðin á nýsjálenskum tíma en ferðafélagarnir voru á Chile-tíma. Á milli þessara tímabelta eru 16 klukkustundir. „Ég á stimpil í vegabréfinu um að ég hafi verið þann 21. janúar í stöðinni en yfirgefið pólinn þann 20. janúar,“ segir Einar. En þarna hafði hann ásamt þremenningunum sem voru með honum í för lagt að baki 1130 kílómetra þar sem skíðað var í 53 daga af þeim 57 dögum sem ferðalagið tók.

Þar sem hópurinn hans Einars var sá síðasta á pólinn á þessari vertíð aðstoðuðu þeir við að taka tjaldbúðirnar saman og síðan hélt hópurinn af stað í troðinni Twin Otter flugvélinni sem sóttu þá á pólinn. Búðirnar verða síðan settar upp á nýjan leik í nóvember þegar ferðamannatíminn hefst að nýju á þessum slóðum.

Jólin voru erfiðasti tíminn

Einar er ekki byrjaður að skipuleggja aðra ferð á suðurpólinn þrátt fyrir að hann útiloki ekki að fara þangað aftur enda stórkostlegt ævintýri sem aldrei á eftir að gleymast. En það verður ekki á þessum sama árstíma.

„Það er erfitt að fara frá fjölskyldunni á þessum árstíma enda jólin stór í huga okkar Íslendinga. Í kringum mig og konu mína, Ingibjörgu Guðjónsdóttur, er rík hefð fyrir því að hittast í kringum jól í boðum af ýmsu tagi. Þetta er eitthvað sem maður metur betur og betur eftir því sem árin líða. Þannig að það er alveg klárt að ég verð heima um næstu jól. Fyrir mig var þetta langerfiðasti hluti ferðarinnar. Ég heyrði reglulega í Ingibjörgu og krökkunum, þeim Helgu Bryndísi og Ísari Erni og fylgdist með jólahaldinu í gegnum þessi símtöl. Ísar Örn, sem er átta ára, fann til að mynda mikið til með mér um áramótin þar sem ég var ekki með neina flugelda með mér í ferðinni. Hann geymdi því smávegis af flugeldum á gamlárskvöld sem við feðgar sprengdum upp saman þegar ég kom heim,“ segir Einar.

Skítkalt í New York

Frá suðurpólnum lá leiðin til Punta Ar­ena í Síle og þaðan til höfuðborgarinnar, Santiago. Þegar hann ætlaði að bóka í flugið til Santiago var honum tjáð að hann ætti ekkert sæti í flugvélinni og kæmist því ekki með. Einar var ekki alveg á því að láta stöðva sig á leiðinni heim og tókst loks að komast með vélinni þrátt fyrir að starfsfólkið á flugvellinum hafi haldið því fram að búið væri að aflýsa fluginu frá Santiago til New York vegna óveðurs sem var spáð á austurströnd Bandaríkjanna.

Þegar Einar hafði samband við AC ferðaskrifstofuna á Nýja –Sjálandi var honum hins vegar sagt að samkvæmt því sem kæmi fram á netinu væri flugið á áætlun og Einar komst því alla leið til New York.

Óveðrið var gengið yfir þegar hann kom til New York en ansi kalt eða átta stiga frost og rok. Á þessum árstíma er hásumar í Sandiego og þrjátíu stiga hiti.

„Ég var léttklæddur við komuna til New York, í stuttermabol og alls ekki búinn fyrir vetrarhörkur. Ég fór inn á hótel þar sem ég dvaldi yfir daginn á meðan ég beið eftir fluginu heim til Íslands. Ég hafði greinilega ekki gert mér grein fyrir því hvað það var kalt því þarna stóð ég norpandi fyrir utan hótelið að bíða eftir rútunni út á flugvöll. Þannig að mér var bara skítkalt þar sem ég stóð og beið eftir rútunni með sultardropa á nefinu,“ segir Einar sem var með nokkra tugi kílóa af klæðnaði og öðrum búnaði sem hentar í skíðaferð á suðurpólinn. „Ég tók ekki sénsinn á því að fara að leita í töskunum að einhverju sem ég gæti farið í. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig lyktin er af fötum eftir 57 daga volk þar sem engin þvottavél er,“ segir Einar og glottir enda ekki víst að lyktin af fötunum sem hann hafði verið í síðustu átta vikur myndi gleðja aðra í rútunni.

Þetta vekur upp spurningar hjá blaðamanni um baðferðir í ferðinni en að sögn Einars komust þeir í eina sturtu á ferðalaginu, í Union Glacier búðunum sem eru á vegum Antarctic Logistics & Expeditions LLC (ALE). Þar fékk hver fjórmenninganna eina fötu af vatni, um 12 lítra, til þess að skola af sér. Þar var einnig boðið upp á tjald með beddum og þykkari dýnu en þeir höfðu sofið á í tjöldum á ferðalaginu. „Þetta var svona lúxusútgáfan,“ segir Einar.

Einar kom til landsins þann 29. janúar og hefur verið að ná áttum eftir að hafa verið í burtu í 11 viku. Hann viðurkennir að hafa verið þreyttur fyrstu dagana eftir heimkomuna og það hafi verið gott að hitta fjölskyldu og vini. Hann segir að bæði fjölskylda og vinir hafi veitt honum ómetanlegan stuðning á meðan ferðinni stóð og það sama á við um fyrirtækið, Íslenskir Fjallaleiðsögumenn. Eins þakkar Einar þeim Guðmundi Guðlaugssyni og Hirti Þór Grétarssyni hjá Íslensku ölpunum sem aðstoðaði hann við undirbúning ferðarinnar.

„Ég hef líka verið að koma mér inn í það sem hafði dunið á í heiminum á meðan við vorum í burtu en ég man ekki til þess að vera einangraður frá fréttum í svo langan tíma áður. Að vísu fengum við send Reutersfréttaskeyti með helstu heimsfréttum frá AC ferðaskrifstofunni á Nýja-Sjálandi. En eftir tvo daga báðum við um að hætt yrði að senda fréttaskeytin. Þau voru einfaldlega svo niðurdrepandi og alls ekki það sem við þurftum á að halda. Við báðum því um að ef senda ætti fréttaskeyti þá vinsamlegast sendið okkur upplífgandi fréttir,“ segir Einar. Vart þarf að taka fram að ekki bárust fleiri fréttaskeyti um ástandið í heiminum á meðan ferðalaginu stóð.

Heldur jólin á suðurpólnum

Bloggið hans Einars

Einar Torfi Finnsson kominn á suðurpólinn.
Einar Torfi Finnsson kominn á suðurpólinn.
Ferðafélagarnarir á áfangastað
Ferðafélagarnarir á áfangastað
Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður skömmu fyrir ferðina á pólinn
Einar Torfi Finnsson fjallaleiðsögumaður skömmu fyrir ferðina á pólinn mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Einar Torfi í gönguskíðaferð á Grænlandi í apríl 2013.
Einar Torfi í gönguskíðaferð á Grænlandi í apríl 2013. Ljósmynd/Íslenskir Fjallaleiðsögumenn.
Einar Torfi Finnsson er ásamt þremur öðrum á suðurpólnum
Einar Torfi Finnsson er ásamt þremur öðrum á suðurpólnum Ljósmynd/Einar Torfi
mbl.is