Göturnar að breytast í malarvegi

Ástand vega á höfuðborgarsvæðinu hefur versnað mjög hratt frá áramótum þar sem víða hafa myndast djúpar holur í götum. Ástandið mun versna á næstunni. Eftir hrun hafa verið notaðar ódýrari lausnir til að viðhalda slitlagi en einnig að setja bætur og fylla í hjólför í stað þess að leggja nýjar yfirlagnir.

Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra, sagði í svari sínu við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar á Alþingi fyrir þremur árum síðan að:„Með minnk­andi fjár­veit­ing­um hef­ur verið dregið úr end­ur­bót­um og styrk­ing­um á vega­kerf­inu og reynt að nota ódýr­ari aðgerðir við viðhald slit­laga, með því að setja bæt­ur og fylla í hjól­för á verstu stöðunum í stað þess að leggja nýj­ar yf­ir­lagn­ir. Á fáum árum verður vega­kerfið með þessu móti óslétt­ara og ójafn­ara, sem dreg­ur úr um­ferðarör­yggi,.“

Þetta virðist vera koma á daginn en víða um borgina sjást djúpar holur í malbikinu ásamt löngum vegköflum með djúpum hjólförum. Ólafur Guðmundsson, varaformaður FÍB og tæknistjóri EuroRAP (European Road Assessment Program) á Íslandi, segir að haldi áfram sem horfi muni ástandið versna á næstu vikum þar sem von er á kulda í bland við votviðri.

Saltið og vatnið segir hann seytla ofan í hjólförin sem hafa myndast á vegunum í stað þess að fljóta út til hliðanna. Í frosti þenjist það svo út og slítí malbikið og bindinguna í því. Þess vegna sé nauðsynlegt að fara í umfangsmiklar aðgerðir í sumar til að snúa þróuninni við.

Í myndskeiðinu að ofan er rætt við Ólaf sem segist hafa komið að umferðaróhöppum sem rekja megi beinlínis til ástandsins sem hefur undið upp á sig að undanförnu. 

Margir orðið fyrir tjóni

Í frétt um holur á vegum sem birtist á mbl.is í gær var óskað eftir frásögnum af fólki sem hefur lent í því að verða fyrir tjóni eftir að hafa keyrt í holur á undanförnum vikum. Viðbrögðin voru sterk og ljóst er að um mörg tilvik er að ræða. Nýtt dekk rifnaði þegar bíll fór um Kaldárselsveg í Hafnarfirði fyrir stuttu, sömu sögu er að segja af bíl sem fór um Fjallkonuveg við Gullinbrú í Grafarvogi. Þá sprakk dekk á bíl við að fara í holu á Álftanesvegi í síðustu viku. Hjólalega skemmdist á bíl sem fór í holu á Reykjanesbraut en þessi dæmi bæti við sögu af jeppa sem reif tvö dekk og skemmdi hjólbúnað í holu við Select á höfða.

Engum þessara lesenda mbl.is hefur tekist að fá tjón sitt bætt þar sem Vegagerðin sem í þessum tilfellum er veghaldari hefur tjáð fólki að ekki hafi verið búið að tilkynna um holurnar áður en tjónið hafi orðið sem firri hana ábyrgð.

Þá hafa borist ábendingar um slæmt ástand Kringlumýrarbrautarinnar, í Ártúnsbrekkunni á Suðurlandsbraut og víðar. Álag á vegakerfið hefur aukist mikið á undanförnum árum og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, hefur margoft sagt að illa gæti farið yrði ekki gripið til aðgerða. Nú virðast spádómar um eyðileggingu vegakerfisins vera að rætast og því er ástæða fyrir ökumenn að hafa varann á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert