Lögreglan á 590 skotvopn

Lögreglumenn hafa haft aðgang að skotvopnum í áratugi.
Lögreglumenn hafa haft aðgang að skotvopnum í áratugi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglan á Íslandi hefur yfir að ráða 590 skotvopnum. Þetta eru töluvert fleiri vopn en tilgreind voru í skýrslu um stöðu lögreglunnar frá árinu 2012 og helgast af því að þá voru ekki gefin upp vopn sem tekin hafa verið úr notkun. Hægt er að taka þau flest í notkun á ný og hluti þeirra er notaður við margvíslega þjálfun.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

Í svarinu kemur fram að alls hafi verið keypt 145 skotvopn frá árinu 2004. Um er að ræða skammbyssur, hríðskotabyssur, riffla, hríðskotariffla, haglabyssur og gasbyssur, fyrir samtals 16,4 milljónir króna. Engin vopn sem lögregla hefur aflað sér á undanförnum áratug hafa verið þegin að gjöf.

Þá segir að ríkislögreglustjóri leggi mat á þörf lögreglu fyrir skotvopn og hafi til þess skýra heimild, samkvæmt reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. Í reglunum er kveðið á um hvernig skotvopn lögreglu er heimilt að nota og að ríkislögreglustjóri ákveði hverrar gerðar vopn skuli vera. Stefnan hafi verið að fækka tegundum vopna þannig að einungis verði fáar tegundir viðurkenndar sem lögregluskotvopn um leið og úrelt vopn eru endurnýjuð.

Einnig kemur fram að skotvopn séu á lögreglustöðvum í öllum umdæmum, á alls 36 stöðum. Auk þess eru vopn höfð í lögreglubifreiðum hjá embættunum á Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Um er að ræða 19 Glock skammbyssur í 11 lögreglubifreiðum. Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur fleiri tegundir af skotvopnum í ökutækjum sínum en misjafnt er í hve mörgum bifreiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert