Andlát: Ásgeir Hannes Eiríksson, fv. alþingismaður

Ásgeir Hannes Eiríksson.
Ásgeir Hannes Eiríksson.

Ásgeir Hannes Eiríksson, fyrrverandi alþingismaður, andaðist á Landakotsspítala 14. febrúar sl. 67 ára.

Ásgeir Hannes var fæddur 19. maí 1947, sonur Sigríðar Ásgeirsdóttur hrl. og Eiríks Ketilssonar stórkaupmanns.

Ásgeir Hannes lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands 1967 og prófi frá Hótel- og veitingaskólanum 1971. Hann stundaði verslunar- og veitingarekstur frá 1970-1989 og rak m.a. Pylsuvagninn á Lækjartorgi. Þá var hann auglýsingastjóri Dagblaðsins 1975-1976.

Ásgeir Hannes var varaþingmaður Borgaraflokksins í Reykjavík 1987-1989 og alþingismaður 1989-1991: Hann var í Vestnorræna þingmannaráðinu, í Þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsríkjanna og sat um tíma á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann var varaborgarfulltrúi Nýs vettvangs frá 1991.

Ásgeir Hannes tók mikinn þátt í félagsstörfum og var m.a. forseti Sambands dýraverndunarfélaga á Íslandi 1973-1974, í stjórn samtakanna Gamli miðbærinn 1985-1988, formaður Karatefélags Reykjavíkur 1974-1975, í stjórn Verndar 1980-1983 og í stjórn SÁÁ 1987-1989. Hann var í stjórn Vináttufélags Íslands og Litháens 1992-1994.

Þá stundaði Ásgeir Hannes um tíma atvinnurekstur í Eystrasaltsríkjunum og rak krána Blástein í Árbæ þar til hann lét af störfum vegna veikinda 2010.

Ásgeir Hannes ritaði bækurnar Það er allt hægt, vinur, Ein með öllu og Sögur úr Reykjavík og var lengi dálkahöfundur.

Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs Hannesar er Valgerður Hjartardóttir. Þau eignuðust þrjú börn, Sigríði Elínu, Sigurð Hannes og Sigrúnu Helgu, sem öll lifa föður sinn. Barnabörnin eru tvö.

Útförin verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík mánudaginn 23. febrúar kl. 13.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert