Andlát: Kári á Rógvi prófessor og fv. lögþingsmaður

Kári á Rógvi.
Kári á Rógvi. Ljósmynd/jn.fo

Færeyingurinn Kári á Rógvi lést eftir skamma sjúkdómslegu aðfaranótt síðastliðins laugardags, 41 árs að aldri.

Kári var prófessor í lögum við Fróðskaparsetur Færeyja og fyrrverandi lögþingsmaður. Hann átti marga kunningja hér á landi, ekki síst frá þeim tíma sem hann vann að doktorsverkefni sínu við Háskóla Íslands.

Kári á Rógvi var fæddur 4. maí 1973 í Þórshöfn, sonur Eyðun á Rógvi og Sunnevu Dalsgaard sem búa í bæ sem heitir Argir og er skammt frá Þórshöfn.

Hann útskrifaðist sem lögfræðingur frá Kaupamannahafnarháskóla 1998, lauk meistaraprófi frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi og varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands 2009. Hann varð fyrsti nemandinn sem hóf nám á nýrri doktorsnámsbraut við Háskóla Íslands eftir að hún var stofnuð haustið 2004.

Kári var skipaður prófessor í lögum við Fróðskaparsetur Færeyja 1. mars á síðasta ári en hafði kennt við setrið í meira en áratug, þar af sem lektor í sögu- og samfélagsdeild frá 2008. Hann hefur einnig verið gestakennari við Háskólann á Akureyri og fleiri erlenda háskóla.

Hann bauð sig fram í kosningum til lögþings Færeyja fyrir Sjálfstjórnarflokkinn á árinu 2008 og fékk mikinn stuðning. Hann var lögþingsmaður til 2011. Formaður Sjálfstjórnarflokksins var hann frá október 2010 til nóvember 2011.

Kári átti sæti í mikilvægum nefndum, bæði sem virtur lögfræðingur og fyrir Sjálfstjórnarflokkinn og hefur auk þess gefið út nokkrar bækur sem tengjast fræðunum.

Hann átti fjölþætt áhugamál en útivist í færeyskri náttúru var þar ofarlega á blaði.

Eftirlifandi kona Kára er Jóhanna á Rógvi, fædd Kristiansen, uppeldisfræðingur og dvaldi hún mikið með honum hér á landi þegar hann var við nám í Háskóla Íslands. Börn þeirra þrjú eru Bragi, Brestir og Brindis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »