Sumir alfarið á móti bólusetningum

Bólusetning.
Bólusetning. mbl.is/Árni Sæberg

Á bilinu 4 til 12 prósent barna á Íslandi eru ekki bólusett við helstu sjúkdómum sem bólusett er við hér á landi. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um bólusetningar barna.

Í svari ráðherra kemur fram að þátttaka í bólusetningum barna hér á landi sé almennt góð. Gögn um bólusetningar barna séu til í miðlægum gagnagrunni frá árinu 2005 og hafi tölur um þátttöku barna í bólusetningum verið nokkuð stöðugar síðan.

Til að ná til þeirra barna sem ekki hafa verið bólusett sendir sóttvarnarlæknir nafnalista til heilsugæslunnar um þá einstaklinga sem ekki eru bólusettir samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunninum. Þannig sé hægt að ná til einstaklinga sem ekki eru bólusettir og bjóða þeim bólusetningu.

Fólk hrætt við aukaverkanir

Þórólfur Guðnason, yfirlæknir sóttvarna hjá Landlæknisembættinu, segir embættið hvetja fólk eindregið til að láta bólusetja börnin sín, en það séu þó alltaf einhverjir sem ekki vilji það af einhverjum orsökum.

Meginástæða þess sé sú að fólk sé hrætt við aukaverkanir af völdum bólusetninga. Þá séu sumir alfarið á móti bólusetningum, og telji jafnvel betra fyrir börn sín að fá þá sjúkdóma sem bólusett er við. Auk þess segir Þórólfur marga halda að þessir sjúkdómar séu ekki hér á landi og því sé óþarfi að bólusetja börn sín. „Fólk gleymir því að þeir eru ekki hér vegna þess að það eru svo margir bólusettir,“ segir Þórólfur.

Að því er fram kemur í svari ráðherra er þátttaka í fyrstu bólusetningum við þriggja og fimm mánaða aldur best, eða um 95%. Þátttaka getur svo farið að dala eftir það, en ýmsar ástæður geta verið fyrir þessu að sögn Þórólfs. „Það getur til dæmis verið að fólk komist ekki á þeim tíma sem það á að koma og svo gleymist þetta. Stundum næst ekki í fólk eða það er flutt eða eitthvað slíkt. Það eru fjölmargar skýringar á því að þátttaka er ekki 100%.“

Hann segir ekki ákveðið köllunarkerfi í gangi hvað þetta varðar, en verið sé að endurskoða það.

Aukaverkanir sjúkdóma verri

Að sögn Þórólfs eru mun meiri líkur á alvarlegum aukaverkunum af völdum þeirra sjúkdóma sem bólusett er við, en af sjálfum bólusetningunum. „Af sumum bakteríusýkingum sem verið er að bólusetja fyrir er það þannig að 10% af þeim sem fá sjúkdóminn deyja og álíka fjöldi fær alvarlegan skaða. Mislingar geta til dæmis verið mjög alvarlegir og leitt til tauga-, heila- eða lungnaskaða hjá þeim sem veikjast.“

Hann segir minniháttar aukaverkanir af bólusetningum algengar, en þær eru t.d. hiti, eymsli og þroti á stungustað. „Það er bara merki um að bóluefnið er að gera það sem það á að vera að gera: örva ónæmiskerfið. Þessi viðbrögð eru eðlileg.“

Þá segir Þórólfur alvarlegar aukaverkanir bólusetningar vera mjög sjaldgæfar, en þær geti valdið því að börn fái lost. „Þetta sést kannski hjá einum af milljón svo þetta er mjög sjaldséð.“

Mikil fáfræði ríkjandi

Rannveig Gunnarsdóttir og Tryggvi Pálsson rótarýfélagar skrifuðu í gær grein í Morgunblaðið þar sem þau sögðu fullyrðingar um skaðsemi bólusetninga verða æ algengari í hinum vestræna heimi, en þær væru oftast byggðar á óvísindalegri hjáfræði klæddri í búning vísinda. Bólusetningar hafi bjargað fleiri mannslífum en nokkur önnur heilbrigðismeðferð en þátttaka þurfi að vera vel yfir 90% til að verjast faröldrum. „Það er samfélagsleg skylda okkar að vinna gegn fáfræði og hjáfræði sem er ógn við heilbrigði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »